Yfirheyrsla: Jón Gísli Guðlaugsson úr Skokkhópi Hamars

birt 29. júní 2014


Jón kemur í mark eftir að hafa hlaupið Laugaveginn.

Jón Gísli Guðlaugsson úr Skokkhópi Hamars byrjaði ekki hlaupa fyrr en hann fór að elta frúna á hlaupaæfingar vorið 2012. Nú hleypur hann fjórum sinnum í viku og segir að fátt toppi að hlaupa eftir skógi vöxnum stígum og heitum lækjum og hverum í Hveragerði og nágrenni.

Fullt nafn: Jón Gísli Guðlaugsson.

Aldur: 47 ára.

Heimabær: Fæddur og uppalinn í Breiðholtinu en flutti í Hveragerði árið 2000.

Fjölskylda: Giftur Elvu Óskarsdóttur. Á fjórar dætur og einn son, þau Anitu Ísey, Karenu Elvu, Hrefnu Ósk og Elínu Hrönn og Mikael Rúnar og hundinn Mola.

Skokkhópur: Skokkhópur Hamars.

Hvenær byrjaðiru að hlaupa? Fór að elta frúna á æfingar í april 2012 og hef mætt reglulega síðan.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Hálfmaraþon.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Í og við Hveragerði. Fátt toppar að hlaupa eftir skógi vöxnum stígum eða í fjöllunum fram hjá hverum og heitum lækjum.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Á laugardagsmorgnum.

Besti hlaupafélaginn? Allir sem mæta á æfingu, frábær hópur.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Hengilshlaupið er spennandi og Berlín, Boston og New York og og ...fullt af freistingum.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninnn fyrir keppnishlaup? Daginn fyrir hlaup er það kolvetni á matseðlinum, pasta og tilheyrandi og á hlaupadegi er það kaffi og ristað brauð með marmelaði.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ég prófaði einhverntíman að hlaupa með aðskotahlut í eyrunum en það vildi illa tolla á sínum stað og þá var því sjálfhætt

Uppáhaldsorkudrykkur? Enginn sérstakur.

Besti matur eftir keppnishlaup? Án nokkurns vafa kaffihlaðborðið hjá Flóamönnum eftir Flóahlaup UMF Samhygðar.

Hvernig slakar þú á? Í heita pottinum heima á palli.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Komst á verðlaunapall í Brúarhlaupinu í hálfmaraþoni 2013. Kláraði Laugaveginn og fyrsta heila maraþonið mitt.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Vor, sumar, haust.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? Ég á 44:17 í 10 km, 1:30:37 í hálfmaraþoni og 3:35 í heilu maraþoni.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, að vissu marki.

Hvar hleypur þú helst? Í Hveragerði og næsta nágrenni.


Jón Gísli fetar Laugaveginn öruggum skrefum.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Ég er að hlaupa 4x í viku og vegalengdirnar eru frá 10 km og stundum lengra.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Ég fer í góða göngutúra og var að koma hjólinu úr geymslunni og hlakka til að nota það.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já, í bland.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Það er að hafa gaman að þessu og bæta tímana.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Nei.

Skráir þú niður æfingar þínar? Ég nota úrið og hleð inná Endomondo og skoða þar.

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Alltaf reglulega.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Þið eru að gera góða hluti.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Ekki ennþá.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmin græjan er ómissandi.

Uppáhalds hlaupafatnaður? CW-X buxur og bolur, get ómögulega verið í compression sokkum - steypist allur út í beinhimnubólgu.

Hvernig hlaupaskó áttu? Brooks Cascadia, Brooks Clycerin, Brooks Pure connect- semsagt Brooks.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Garmin hlaupaúrið.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Hamarshlaupið er frábært 25km utanvegahlaup vegna skemmtilegrar brautar og náttúrufegurðar. Erlendis hef ég bara hlaupið í Munchen og það var krefjandi og skemmtilegt.


Jón með góðum hlaupafélögum að loknu Munchenarmaraþoni.