Yfirheyrsla: Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir úr ÍR skokk

birt 06. maí 2016


Ragnheiður í flugköstum.

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir er 34 ára hlaupari úr ÍR skokk. Eftir að hafa tekið skorpur hér og þar gekk Ragnheiður til liðs við ÍR skokk árið 2012 og hefur síðan æft með skipulegum hætti. Og framfarirnar hafa ekki látið á sér standa eins og lesa má í Yfirheyrslunni. Nú er svo komið að dætur hennar þrjár eru farnar að hlaupa með henni og þá hefur hún einnig verið að færa sig út í hjólreiðar með eiginmanni sínum. Þá er ferfætti fjölskyldumeðlimurinn, Skuggi, einnig alltaf til í að fara út að hlaupa með eiganda sínum.

Kynnumst Ragnheiði nánar í Yfirheyrslunni. Gjörið svo vel.

Fullt nafn: Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir.

Aldur: 34 ára.

Heimabær: Breiðholt (Reykjavík).

Fjölskylda: Eiginmaður Þorkell Guðjónsson, dætur eru Inga Vildís 12 ára, Hulda 9 ára og Iðunn 5 ára, Skuggi Labrador er 6 ára.

Skokkhópur: Hef hlaupið með ÍR skokk síðan 2012.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa?
Ég hljóp eitthvað í menntaskóla en það vöru mjög stutt hlaup. Ég hef alltaf hlaupið smá síðan og man eftir að hafa hlaupið á morgnanna í Skagafirði þegar ég var í skóla á Hólum í Hjaltadal haustið 2002. Ég gifti mig árið 2005 og var þá ákveðin í að líta vel út í brúðarkjólnum. Ég ákvað að skrá mig í hlaupahóp hjá Íslandsbanka og æfði fyrir 10 km það haustið. Síðan hljóp ég með hundunum mínum í nokkur ár eða þar til ég fór að hlaupa með ÍR skokk haustið 2012. Ótrúlega gaman að sjá hvað árangurinn jókst mikið við það að fara að hlaupa með öðrum.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur?
Mér finnst eiginlega allar vegalengdir skemmtilegar. Yfirleitt vil ég samt hafa þær lengri en 10 km. Síðasta sumar fór ég að hafa einstaklega gaman af 5 km keppnishlaupum því stelpurnar mínar komu með mér í nokkur slík hlaup. Það var alveg ótrúlega gaman. Mér finnst líka gaman að keppa í óhefðbundnari vegalengdum því þá set ég minni pressu á sjálfan mig varðandi bætingar.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa?
Elliðaárdalurinn er hérna rétt hjá mér, það er yndislegt að hlaupa þar og mér finnst ég heppinn að hafa hann svona nálægt mér. Mér finnst þó meira gaman að vera annarsstaðar en á malbiki og vill helst vera í náttúrunni. Heiðmörkin er t.d. alveg frábær. Við Reykvíkingar erum reyndar alveg ótrúlega heppinn með margar og skemmtilegar hlaupaleiðir í og við borgina.

Hvernig hlaupaskó áttu?
Nú á ég bara Brooks skó, þeir virðast henta mínum breiðu fótum vel.


Dætur Ragnheiðar eru farnar að fylgja henni í hlaupin.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa?
Ég hef mest hlaupið seinni partinn á virkum dögum síðustu ár og snemma dags um helgar. En ég held t.d að það geti verið æðislegt að hlaupa á björtum sumarnóttum og mér finnst mjög gaman að taka þátt í Miðnæturhlaupinu.

Besti hlaupafélaginn?
Skuggi minn hefur verið tryggasti hlaupafélaginn minn, hann nennir alltaf með mér út að skokka og er ekki langrækinn ef ég fer á æfingu án hans. Hann lætur ekki eins og tíkin mín sem við fjölskyldan kvöddum síðasta sumar en árið 2005 var hún farin að fela sig undir borði þegar ég tók fram hlaupaskóna.

Mig langar til að þakka Felix og Helga fyrir að nenna að hafa mig með í maraþonæfingunum í haust. Í ÍR-skokk er síðan hellingur af frábæru fólki sem er mjög gaman að hlaupa með. Síðan er fátt skemmtilegra en að hlaupa með stelpunum mínum. Þær eru svo hörkuduglegar.

Uppáhalds hlaupafatnaður?
Uppáhalds buxurnar mínar eru CXW. Kannski því það eru einu compression buxur sem ég hef átt en mér finnst ég eiginlega þurfa að hlaupa í þannig. Annars skiptir merkið mig engu máli en mér finnst gaman kaupa fallega boli. Þess vegna er Dansport í uppáhaldi því þar fæ ég hlýja boli á góðu verði ásamt ýmsu öðru sem er gott að eiga á hlaupum.


Með Felix og Helga í Haustmaraþoni 2015.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands?
Ég hef bara tekið þátt í einu hlaupi utanlands svo það hlýtur að vera uppáhalds, það var í Frakklandi, nálægt París. Þegar ég skráði mig var það 24 km utanvegahlaup, mikið upp og niður, þegar ég kom á staðinn var það merkt 25 km og svo endaði ég á því að hlaupa 26 km. Hlaupið heitir Le CASTOR FOU og var í ofsalega fallegri náttúru.

Hér innanlands held ég mikið upp á Hreppslaugarhlaupið því það er í sveitinni minni. Þá er alltaf mikil stemming í Gamlárshlaupi ÍR en það sem mér fannst allra allra skemmtilegast á síðasta ári var Hvítasunnuhlaup Hauka. Leiðin var svo skemmtileg, vel merkt og viðmótið frá öllu starfsfólki frábært. Svo skemmdi veðrið ekki fyrir.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu?
Garmin tækið mitt er algjörlega ómissandi, bæði á hlaupum og hjólandi.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum?
Garmin tækið mitt.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í?
Ég á eftir að hlaupa Laugaveginn og Jökulsárhlaupið, það kemur að því :)

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup?
Morguninn fyrir finnst mér banani alltaf standa fyrir sínu. Annars er ég búin að vera í miklu basli með magann á mér, næ ekki að klára keppnir því ég þarf annað hvort að komast á klósett eða bara hreinlega æli. Þetta er greinilega tengt stressi en ég hef líka verið að velta mataræðinu fyrir mér í þessu samhengi og er núna að prófa að sleppa mjólkursykrinum og finnst eins og það sé að virka.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum?
Nei, mér finnst svo gaman að spjalla og hlusta ef ég hleyp með öðrum eða njóta kyrrðarinnar ef ég er ein.

Uppáhaldsorkudrykkur?
Ég hef ekki náð að finna orkudrykk sem ég þori að drekka fyrir eða í hlaupi út af maganum, en ef ég fæ Powerade er ég fljóta að klára úr flöskunni.

Besti matur eftir keppnishlaup?
Bara það sem mig langar í í það skiptið.


Létt á fæti í Elliðaárdalnum.

Hvernig slakar þú á?
Með því að sofna á sófanum, fara á hestbak, út að skokka eða hjóla.

Mesta afrek á hlaupabrautinni?
Ég á engin stórafrek á hlaupabrautinni en mér fannst mjög gaman núna fyrir stuttu að ná PB í 5 km, sérstaklega þar sem ég hef ekkert hlaupið þetta árið nema í keppnishlaupum. En ég er að æfa fyrir WOW cyclothon með því að mæta í spinningtíma og það hefur greinilega skilað sér inn í þetta stutta hlaup.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa?
Það er alltaf skemmtilegt að hlaupa þegar veðrið er gott. Svo aðeins minna skemmtilegt þegar veðrið er vont. Hver árstíð hefur sinn hlaupasjarma í góðu veðri. Ég elska að hlaupa um mitt sumar eftir rigningaskúr og finna sterka gróðurlykt, sérstaklega af birki. Brakið í snjónum undan hlaupaskónum í miklum kulda er líka í uppáhaldi og að fylgjast með náttúrunni skipta um liti að hausti eða vakna upp að vori.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni?
21:31/ 44:43 / 01:44:31 / 4:03:48

Hleypur þú eftir æfingaáætlun?
Nei ég er ekki góð í þannig. Þess vegna er gott að vera í hlaupahóp, til að vera ekki alltaf að gera það sama.

Hvar hleypur þú helst?
Úti :) Ég hef líklega langmest hlaupið í Elliðaárdalnum.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu?
Ég hleyp til að líða vel á líkama og sál. Og til að geta borðað eins og mig lystir :)


Mæðgur á fleygiferð í Globethon hlaupinu.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku?
Akkurat núna hleyp ég nánast ekkert nema keppnishlaup. En undir venjulegum kringumstæðum hleyp ég 3-4 og þá um 35-45 km á viku.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup?
Ég hef aldrei verið dugleg í því, nema að fólk telji hestamennsku sem líkamsrækt. Síðan í nóvember hef ég verið að mæta í spinning fjórum sinnum í viku, tók mér tímabundið frí frá reglulegum hlaupaæfingum og núna er ég að bæta styrktaræfingum við. Markmiðið er að styrktaræfingar verði jafn sjálfsagður hlutur að fara út að hlaupa eða hjóla


Boðhlaupssveit Ragnheiðar í Reykjavíkurmaraþon

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun?
Ef að Felix, Ómar eða Burkni hafa sett það á planið, þá já.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum?
Mig langar að sjá hvort mér takist að bæta 10 km tímann minn í sumar með hjólaþjálfuninni eins og gerðist með 5 km. Einnig stefni ég á að ná að hlaupa maraþon á undir fjórum tímum í framtíðinni.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum?
Margar, yfirleitt er það bara sú manneskja sem ég er að hlaupa á eftir og langar til að ná.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti?
Ef það fer ekki á strava þá gerðist það ekki. Ég get eins sleppt æfingu eins og að gleyma úrinu og skrá ekki í strava. En connect.garmin er að verða mjög skemmtileg síða og ég skrái því allt þar líka núna. (Enda þarf ég þess líka til að fá upplýsingar inn á strava)

Skoðar þú hlaup.is reglulega?
Já, nánast daglega.

Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is?
Nei ekki eins og er.

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum?
Ég ákvað í lok ágúst í fyrra að taka þátt í haustmaraþoninu. Maginn var að stríða mér, um leið og ég fór að hlaupa hratt fór allt í rugl, svo mér fannst þetta vera lausn, því þarna gæti ég hlaupið langt og hægt. Það er samt ekkert alltaf svakalega gaman að æfa fyrir maraþon á Íslandi. Veðrið er ekki alltaf með manni í liði. Á æfingatímabilinu fór ég með stóru stelpurnar mínar í Hjartadagshlaupið. Sú eldri stakk mig og miðjuna af en við hlupum saman, ákveðnar í því að vera undir 35 mín. Hulda mín var mjög ákveðin og ég sá strax að hún yrði vel undir markmiðinu sínu. Þegar við erum búnar með 4 km þá er hún orðin ansi þreytt svo ég ákveð að reyna að peppa hana upp með því að segja; „Það er bara kílómeter eftir." Um leið og ég sleppi orðinu byrjar að rigna á okkur.

Hún svarar mér þá svo einlægt: „Það er bara til að hressa okkur við mamma!!!" Hún hleypur svo restina og klárar á 30:24 og ég var ofsalega stolt mamma. En þarna tileinkaði ég mér nýtt viðhorf sem ég ákvað að yrði mottóið mitt fram að maraþoni og er nú orðið að hlaupamottóinu mínu: „Rigning er bara til að hressa mig við." Og það er mjög gott hlaupaviðhorf á Íslandi.

Fleiri yfirheyrslur má finna á hlaup.is