Í yfirheyrslu vikunnar situr Sigurjón Ernir Sturluson fyrir svörum. Sigurjón Ernir er 26 ára nemi í íþrótta- og heilsufræði og stefnir á að klára meistarapróf í vor. Meðfram vinnu og hlaupum starfar Sigurjón í Sportvörum og í Járnblendiverksmiðjunni Elkem Ísland að Grundartanga. Þá er Sigurjón þekktur í hlaupaheiminum fyrir að nota Snapchat í hinum ýmsu hlaupum hvort sem það er í fjallahlaupum, götuhlaupum eða maraþonhlaupum.
Einnig starfar Sigurjón sem einkaþjálfari/fjarþjálfari þar sem hann hjálpar fólki með hlaup, lyftingar og mataræði.
"Ég æfði körfubolta í 15 ár en fór að hafa áhuga á lyftingum og mataræði í 8. bekk og hef ekki misst áhugann síðan. Ég byrjaði í Boot Camp á Akranesi árið 2006, tók þar þjálfararéttindi 2009 og fór svo að prófa mig áfram í götu- og fjallahlaupum, Crossfitt og þrekkeppnum og hef náð þar ágætis árangri. Sigraði þrekmótaröðinna 2015 og hlaut titilinn hraustasti maðurinn 2015," segir þessi mikli líkamsræktarfrömuður áður en við við fáum að spyrja hann nokkurra laufléttra spurninga.
Fullt nafn: Sigurjón Ernir Sturluson.
Aldur: 26 ára.
Heimabær: Hvalfjarðarsveit.
Fjölskylda: Kærastan, Simona Vareikaité og heimiliskötturinn.
Skokkhópur: Ég er utan hóps eins og er og er að hlaupa eftir prógrammi sem ég setti upp sjálfur með áherslu á aukið þol, snerpu og hraða.
Þjálfunarsíða á Facebook: Fjarþjálfun Sigurjóns Ernis.
Snapchat: sigurjon1352.
Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Ég byrjaði að fikta mig áfram í hlaupunum þegar ég var 15 ára gamall og hljóp þá mest á grófum malarstígum í sveitinni, Akrafjalli og stundum í fjörunni. Þessi hlaup gáfu mér mjög góðan grunn í fjallla- og utanvegahlaupunum.
Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Það er svo sem engin vegalengd skemmtilegari en önnur hjá mér, ég set frekar mælikvarðann á félagskap, umhverfið og hlaupaleiðina.
Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Ég vel oft mýkra undirlag í æfingunum og æfi mikið á braut, en mér þykir hvað skemmtilegast að æfa utanvega og á fjöllum.
Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Þar sem dagskráin er ansi þétt hjá mér þá æfi ég á öllum tímum sólahringsins (þegar ég get stokkið á æfingu). En þykir best að æfa og keppa seinni part dags 13-18:00.
Besti hlaupafélaginn? Ég hleyp mest einn en mér þykir mjög gaman að hlaupa með keppnisfélögunum líkt og Þórólfi Inga, Benoit Branger, Ívari Trausta, Ingvari Hjartarsyni, Guðna Páli, Arnari Pétussyni, Pétri Ívarsyni og fleirum. En ég hef mest hlaupið með þessum hlaupagörpum í hinum ýmsu keppnishlaupum.
Uppáhaldsorkudrykkur? Fyrir æfingu fæ ég mér oftast kaffi með kókosolíu eða pre workout frá Fitnesssport, í hlaupunum nota ég Powerade og orkugel. Eftir hlaup fæ ég mér Hleðslu og Amino Linx frá Fitnesssport sem er góð blanda af BCAA, Beta Alanine og fleiru sem er gott eftir átökin og er virkilega bragðgott.
Uppáhalds hlaupafatnaður? Ég hef verið að nota Ronhill frá Dansport núna í nokkur ár og fíla þann fatnað/búnað alveg í botn.
Hvernig hlaupaskó áttu? Ég nota Saucony frá Dansport í öllum mínum hlaupum og nota Saucony Kinvara 7 í styttri hlaupnum (3-10 km), Saucony Triumph ISO2 í lengri hlaupunum (10-42,2 km) og Saucony Peregrine í fjallahlaupin.
Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Góð tónlist, rétta veðrið og rétti búnaðurinn.
Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Hvítasunnuhlaup Hauka og Snæfellsjökulshlaupið hér á landi. Ég hef ekki mikið verið að hlaupa úti en keppti í Þriggja landa maraþoninu í Þýskalandi, Austurríki og Sviss fyrir einum mánuði og þótti það mjög skemmtilegt hlaup.
Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Saucony skór, síminn (tónlist og strava, en þarf að fá mér gott hlaupaúr) og rétti fatnaðurinn.
Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í ? Ég er mikið fyrir krefjandi áskoranir og ég væri til í að hlaupa maraþon á Kínamúrnum, NY maraþonið og svo eru ég og kærastan skráð í Mont Blanc maraþonið (42,2 km fjallahlaup) í Frakklandi næsta sumar, 25 júní 2017 sem mig hlakkar mikið til að hlaupa.
Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Ég hef verið að stunda lotuföstu núna í 4 ár og sleppi því oft að borða fyrir styttri keppnishlaupin (það hefur aldrei komið niður á orku). En fyrir 21,1km og lengra fæ ég mér prótein og hafragraut með bönunum og bláberjum.
Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Ég hlusta mest á rokk, Metallica, AC/DC, Black keys og fleira í þeim dúr.
Besti matur eftir keppnishlaup? Strax eftir hlaup er maginn oft viðkvæmur og fæ ég mér þá oft banana og orkudrykk eða hleðslu. Seinni máltíðin samanstendur af góðri blöndu af próteini, fitu og kolvetnum og verður þá oft Ginger, Saffran eða Serrano fyrir valinu þó maður leyfi sér jú stundum pítsu eða hamborgara.
Hvernig slakar þú á? Með góðri mynd/þætti upp í sófa með kærustunni og kettinum okkar.
Mesta afrek á hlaupabrautinni? Ætli það sé ekki Hringferðin 2015 kringum landið sem ég hljóp með Útmeða hópnum. En þar hljóp tíu manna hópur (fimm pör) hringveginn, 1.350 km á fimm dögum (170 km hjá mér). Þar á eftir má nefna sigur í fimm Esjuferðum 2013 (4:41:34 klst), Þriggja landa maraþonið 2016 (2.46:52 klst) og 10 km Fossvogs/Hleðsluhlaupið 2016 fimm dögum eftir maraþon þar sem ég bætti mig um tæpar 30 sek og hljóp á 35:04 min.
Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Sumrin.
Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5 km: 16:58 min - 10 km: 35:04 min - 21,1 km: 1:18:02 min - 42,2 km: 2:46:52 min (Allir þessir tímar eru frá því í sumar/haust). Jú jú hlaupaprógrammið mitt virðist að virka.
Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, ég bjó sjálfur til Interval æfingaráætlun sem ég hef verið að útfæra eftir komandi keppnishlaupum og hefur virkað mjög vel.
Hvar hleypur þú helst? Hlaupabrautinni og keppnishlaupum.
Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Léttruglaður, skipulagður og ákveðinn.
Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Ég er að hlaupa 20-50 km á viku en það fer svolítið eftir komandi keppnum. Ég hleyp mest interval og nota þá hærra álag á móti meiri hraða = styttri vegalengd og minni tími í æfingu.
Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já 70% af mínum æfingum er styrktarþjálfun þar sem ég æfi í Boot Camp og Sporthúsinu.
Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já 60-70 % af mínum hlaupaæfingum eru Interval eða sprettir.
Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Bæta hraðann og hafa gaman.
Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Friðleifur Friðleifsson er mikil fyrirmynd og skemmtilegur karakter þegar kemur að hlaupunum og hefur hann oft gefið mér góð ráð á brautinni. Einnig fylgist ég með Kára Steini og Þorbergi Inga.
Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég nota Strava í símanum og skrái einnig oft niður æfingarnar á blað heima, en er alltaf á leiðinni að fara að skoða gott hlaupaúr.
Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já sennilega 2-3 í viku og oftar yfir sumartímann. Torfi og allir þeir sem koma að hlaup.is eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir utanumhald á síðunni.
Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Það væri gaman að sjá brautarmetin bæði hjá körlum og konum á síðunum sem koma upp þegar komandi hlaup eru skoðuð. Það gefur oft góða mynd af erfiðastigi hlaupsins ásamt og getur verið leiðbeinandi fyrir markmiðasetningu fyrir hlaupið sjálft.
Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Minnistæðast er þakklætið sem við fengum fyrir að hlaupa hringinn í kringum landið með Útmeða hópnum. Þarna hlupum við fyrir gott málefni en Útme‘ða er átaks- og forvarnarverkefni gegn sjálfsvígum ungra karla. Um leið snertum við hjörtu margra um leið og við börðumst við að klára hringinn á sem skemmstum tíma.