10 ára hljóp hálfmaraþon á 1:37:15

birt 11. maí 2014

Hinn 10 ára Noah Bliss setti óopinbert heimsmet 3. maí síðastliðinn þegar hann hljóp Wisconsins hálfmaraþonið á 1:37:15. Noah hafnaði í 71. sæti af 2073 keppendum auk þess að sigra með yfirburðum í flokki 19 ára og yngri.

Fyrir hlaupið hafði hinn ungi Noah ekki stefnt sérstaklega á metið heldur ætluðu hann og faðir hans að hlaupa saman. En um miðbik hlaupsins skildi Noah faðir sinn eftir í reyk og kom í mark tveimur mínútum á undan honum. Þess má geta að Jeff Bliss, faðir Noah er enginn aukvissi þegar kemur að hlaupum en hann á best 1:28:30 í hálfmaraþonin og hefur einnig hlaupið ofurhlaup.

Aldurstakmarkið í Wisconsins maraþonið er fjórtán ár en eftir umleitanir Bliss fjölskyldunnar ákvaðu forsvarsmenn hlaupsins að gefa hinum unga Noah undanþágu.

Noah byrjaði að sýna áhuga á hlaupum aðeins sjö ára eftir að hafa fylgst með föður sínum hlaupa. Nánast samstundist tók Noah ástfóstri við hlaupa og núna hleypur 24-32 km á viku. Til að setja umrætt afrek í samhengi er gaman að nefna að Noah er aðeins í kringum 35 kíló og í kringum 140 cm. Svo má alltaf spyrja sig hvort svona álag sé börnum hollt. En drengurinn ungi getur hlaupið, um það verður ekki deilt.