19 Íslendingar hlupu í slæmum aðstæðum í Boston maraþoninu

birt 17. apríl 2018

Desiree Linden sigraði í kvennaflokki í Boston maraþoninu.19 Íslendingar voru í hópi rúmlega 30 þúsund hlaupara sem tóku þátt í Boston maraþoninu í gær. Aðstæður voru erfiðar og harla óvenjulegar fyrir Boston maraþon, töluverður mótvindur, rigning og um 5°C (um frostmark með vindkælingu). Fyrstur Íslendinga í mark var Páll Ingi Jóhannesson á 2:52:43.Fyrst íslenskra kvenna var Ásta Kristín Reynisdóttir Parker á 3:12:34 og hafnaði jafnframt í níunda sæti kvenna í aldursflokki 45-49 ára. Ásta Kristín var tilnefnd sem langhlaupari ársins 2017 en hún sigraði í kvennaflokki í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. Þá má bæta við að Jóna Óskarsdóttir hafnaði í 14. sæti í aldursflokki 45-49 ára í Boston maraþoninu á 3:16:57.

Desiree Linden frá USA sigraði í kvennaflokki á 2:39:54 og er hún fyrsta bandaríska konan til að vinna Boston maraþonið síðan 1985. Yuki Kawauchi frá Japan kom fyrstur karla í mark á 2:15:58 eftir að hafa unnið upp 90 sekúndna forskot Kirui frá Kenya á síðustu 5 km með miklum endaspretti. Kawauchi er fyrsti Japaninn frá 1987 til að vinna Boston maraþonið. Fróðir menn vestanhafs segja að um sé að ræða hægasta Boston maraþon í 40 ár og má það án efa rekja til slæmra aðstæðna.