birt 14. ágúst 2014

Spánverjinn Julen þerrir sig eftir að hafa hlaupið yfir á.Keppendur í Fire and Ice Ultra hafa eftir fimm keppnisdaga lokið við heila 227 km. Heilt yfir hefur keppendum gengið ágætlega en kalt hefur verið í veðri þó sólin hafi látið sjá sig síðasta sólarhringinn auk þess sem hitastig hefur slagaði upp í tveggja stiga tölu.Keppendur lögðu í hann úr Kverkfjöllum á sunnudaginn og enn bera sig flestir ágætlega þó einn hafi neyðst til að draga sig úr keppni vegna meiðsla.Eins og gengur í svona keppni eru keppendur þó laskaðir, blöðrur hér og þar ásamt eðlilegum stirðleika.

Keppendur hafa haft næturstað á ólíkum stöðum og þurft að tjalda í grjóti, sandi og grasi sem hefur þótt sínu þægilegast, sérstaklega eru erlendu keppendurnir fegnir mjúka grasinu.

Hlaupaleiðirnar eru heldur betur magnaðar og keppendur fá að njóta landsins eins og það gerist best. Leiðirnar liggja meðal annars um Herðubreiðalindir, Drekagil, Hrossaborgir og Péturskirkju utan Mývatns þar sem keppendur lögðust til hvílu í gærkvöldi.

Það þarf ekki að koma á óvart að erlendu gestunum heillist af landslaginu og finnist aðstæður og náttúran allt að því óraunveruleg. Þeir njóta sín í botn þó margir kvarti undan kulda. Þá hefur það sett sinn svip á hlaupið að keppendur hafa fengið mikla athygl frá gestum og starfsfólki þjóðgarðsins sem einnig hefur aðstoðað skipuleggjendur eftir bestu getu.

Mohamad Ahansal, þrautreyndur og margverðlaunaður Ultra hlaupari hefur komið fyrstur í mark alla dagana og leiðir. Hlaupinu lýkur á laugardag.