birt 10. apríl 2008

Á aðalfundi UMFR36 þann 27. mars 2008 var samþykkt tillaga þess efnis að þriggja og sex tíma hlaupið, sem félagið hefur staðið fyrir um tveggja ára skeið, muni héðan í frá verða nefnt í höfuðið á Jóni H. Sigurðssyni langhlaupara. Jón var einn af fremstu langhlaupurum Íslands á árunum fyrir og eftir 1970 og keppti margoft fyrir Íslands hönd í 5.000 og 10.000 m hlaupum á þeim árum. Hann slasaðist illa í vinnuslysi árið 1977, þá 32 ára gamall, og var bundinn hjólastól seinni helming æfinnar. Við þetta mikla áfall kom í ljós rómuð keppnisharka Jóns sem aldrei fyrr. Hann menntaði sig vel og skapaði sér þannig nýja tilveru og nýjan starfsvettvang. Áhugi hans á íþróttum dvínaði ekki þrátt fyrir breytta lífshagi og tók hann meðal annars þátt í Reykjavíkurmaraþoni um margra ára skeið á hjólastólnum, bæði í 10 km vegalengd og í hálfmaraþoni. Margir yngri hlauparar minnast Jóns helst í því sambandi.  Jón lést fyrir aldur fram í febrúar sl. aðeins 64 ára gamall.

Félögum í UMFR36 þykir við hæfi að halda nafni þessa mikla garps á lofti innan hlauparasamfélagsins með því að nefna hlaup það, sem félagið stendur árlega fyrir, Jónshlaup.

Jónshlaup fer fram á vegum UMFR36 laugardaginn 13. september 2008 og verður keppt í þriggja tíma og sex tíma hlaupi. Sex tíma hlaupið hefst kl. 10.00 f.h. og þriggja tíma hlaupið hefst kl. 13.00 e.h. Hlaupunum lýkur báðum á sama tíma kl. 16.00 e.h.

Nánari upplýsingar birtar síðar.