Þorbergur Ingi Jónsson kom fyrstur í mark á nýju meti í Laugavegshlaupinu sem fram fór í gær, 4:07:47. Þar með bætti hann met Björns Margeirssonar frá 2012 sem var 4:19:55. Elísabet Margeirsdóttir var fyrst kvenna en hún kom í mark á tímanum 5:34:05.
Fyrstu þrír karlar í mark voru:
1. Þorbergur Ingi Jónsson 4:07:47
2. Örvar Steingrímsson 4:46:14
3. Eliot Drake (USA) 5:01:00
Fyrstu þrjár konur í mark voru:
1. Elísabet Margeirsdóttir 5:34:05
2. Guðbjörg Margrét Björnsdóttir 5:45:15
3. Ásdís Söebeck Kristjánsdóttir 5:53:33
Hlauparar hafa talað um að fyrri hluti leiðarinnar hafi verið mjög krefjandi: snjór, bleyta og vindur. En seinni hlutann var vindurinn meira í bakið og þurrt og gott veður tók á móti hlaupurum í Þórsmörk.
Af 354 hlaupurum sem lögðu af stað náðu 330 að ljúka hlaupinu en þess má geta að þátttakendur í hlaupinu voru af 28 mismunandi þjóðernum, 210 frá Íslandi, 29 Bandaríkjamenn og 17 Þjóðverjar svo eitthvað sé nefnt.
66% þeirra sem tóku þátt í Laugavegshlaupinu höfðu aldrei hlaupið það áður. 34% hlaupara höfðu tekið þátt í hlaupinu áður og sumir hverjir oftsinnis. Gottskálk Friðgeirsson og Höskuldur Kristvinsson voru þeir þátttakendur sem oftast höfðu tekið þátt áður eða 14 sinnum. Þá var Ívar Auðunn Adolfsson að taka þátt í 11.sinn og Helgi Kristinn Marvinsson í 10.sinn. Aldur þátttakenda var frá 20 ára til 75 ára en flestir voru hlaupararnir á aldursbilinu 40-49 ára og 30-39 ára.