429 ætla Laugaveginn - Aldrei fleiri tekið þátt

birt 14. júlí 2015

Laugavegurinn er svo sannarlega ekki fyrir hvern sem er.Laugardaginn 18.júlí næstkomandi fer Laugavegshlaupið fram í 19. sinn. Frá upphafi hefur hlaupið verið haldið af Reykjavíkurmaraþoni. Alls eru 429 hlauparar skráðir til keppni í ár 143 konur og 286 karlar. Aldrei hafa fleiri verið skráðir til þátttöku í Laugavegshlaupinu en nú.Hlauparar frá 29 löndumÍslenskir þátttakendur eru 219 talsins og frá öðrum löndum 210. Fjölmennastir eru Bandaríkjamenn eða 65, þá Bretar sem eru 26 talsins og þriðja fjölmennasta þjóðin eru Kanadamenn sem eru 18 skráðir til þátttöku. Þátttakendur í hlaupinu eru af 29 mismunandi þjóðernum.

Hlaupið hefst í Landmannlaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk. Eins og margir vita er Laugavegurinn ein fjölfarnasta og vinsælasta gönguleiðin um íslensk öræfi. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en met hlauptími á þessari 55 km leið í Laugavegshlaupi er 4 klukkustundir og 7 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir í kvennaflokki.

Hlaupið hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum, laugardaginn 18.júlí 2015 klukkan 9.00 og lýkur við skála Ferðafélagsins í Húsadal í Þórsmörk. Tímamörk eru í hlaupinu og þurfa hlauparar að vera komnir í Álftavatn (22 km) á innan við 4 klst og í Emstrur (34 km) á innan við 6 klst. Það er því aðeins fyrir vel æfða hlaupara að taka þátt í þessari miklu þolraun.

Hlauparar þurfa ekki aðeins að berjast við kílómetrana 55 og þá miklu hækkun sem er á leiðinni heldur einnig náttúruöflin. Búast má við öllu af íslenska sumarveðrinu sem hefur verið kalt í ár eins og flestir hafa tekið eftir. Vitað er að það er óvenju mikill snjór á leiðinni og geta hlauparar búist við snjó á fyrstu 18 km leiðarinnar.

Á fimmtudag 16.júlí milli 12 og 17 og föstudag 17.júlí milli 9 og 17 koma þátttakendur í Laugardalshöll til að sækja keppnisgögn sín. Fulltrúar fjölmiðla eru velkomnir á staðinn til að taka viðtöl við þátttakendur og skipuleggjendur hlaupsins.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu hlaupsins.