Sunnudaginn 7.september síðastliðinn bættust 4 Íslendingar og Torben okkar Gregersen (ættleiddi Danskurinn okkar) í stoltan hóp Járnkarla og -kvenna.
Steinn Jóhannsson, Torben Gregersen, Trausti Valdimarsson, Gísli Ásgeirsson og Erlendur Birgisson luku allir Köln 226 (Ironman vegalengdin) með glæsibrag. Allir voru þeir Járnbræður á mjög góðum tímum og standa þar upp úr Steinn og Torben, sem voru sitt hvoru megin við 10 klst. Tími Steins, 9:42:47, er einn langbesti tími Íslendings á þessari vegalengd en bíða verður staðfestingar á tímum Einars Jóhannssonar frá árunum 1994 og 1996 áður en úr því verður skorið hvort um nýtt Íslandsmet sé að ræða. En glæsilegt er þetta óumræðanlega, enda Steinn, eins og þeir allir, mikill íþróttamaður.
Nánari útlistun á tímum þeirra Járnbræðra má sjá í nýstofnaðri Þríþrautarskrá, sem Stefán Þórðarson hefur sett saman. Þar má einnig sjá tíma allra Íslendinga sem lokið hafa Ironman-þríþraut (amk þeirra sem fréttir hafa spurst af) og vonir standa til að þarna verði einnig hægt að setja inn tíma í 1/2 Ironman seinna meir.