84 FH-ingar hlupu utanvega á N-Ítalíu

uppfært 25. ágúst 2020

100 manna hópur úr Hlaupahópi FH hefur undanfarna daga dvalið á N-Ítalíu þar sem FH-ingar tóku þátt í Ultra Trail Lago d''Orta. Samtals tóku 84 hlauparar þátt  fjórum mismunandi vegalengdum. Það er skemmst frá því að segja að allir 84 hlaupararnir komu í mark, enginn þurfti að hætta keppni. Einstakur árangur það.

6 FH-ingar tóku þátt í 100 km hlaupinu með 6100m hækkun.
12 FH-ingar tóku þátt í 60 km hlaupinu með 3300m hækkun.
37 FH-ingar tóku þátt í 34 km hlaupinu 2200m hækkun.
28 FH-ingar tóku þátt í 17 km hlaupinu 680m hækkun.

Einstakt að allir klári
Hlaup.is heyrði í þjálfara FH-inga Friðleifi Friðleifssyni sem var í skýjunum með ferðina og árangur sinna hlaupara. „Þetta er algjörlega einstakt að allir skulu hafa skilað sér í mark, allir með bros á vör. Ekki síst ef haft er í huga að aðstæður voru virkilega krefjandi, mikil rigning og allt rennandi blautt," segir Friðleifur sem hefur farið í ófáar hlaupaferðirnar í gegnum tíðina, bæði með hlaupahópum og landsliðum. Hann ítrekar að það sé einstakt að allir hlauparar í svo stórum hópi skili sér í mark í hlaupum sem þessum.

FH-ingar eru greinilega að vinna frábært starf í sínum flotta hlaupahóp, það er ekki á hverjum degi sem íslenskur hlaupahópur sendir hundrað hlaupara erlendis, hvað þá í utanvegahlaup. Að jafnaði æfa um 150 manns með Hlaupahópi FH þó allt að 200 manns séu skráðir í hópinn.

Hlupu samtals 3100 km
Friðleifur tekur fram að hann sé sérstaklega stoltur af óreyndari hlaupurum hópsins sem margir hverjir voru að taka þátt í sínu fyrsta utanvegahlaupi af þessu tagi. Þeir hafi staðið sig frábærlega enda hafi hópurinn æft einkar vel frá seinni hluta síðasta vetrar. Hópurinn hefur verið í stífum utanvegaæfingum í paradís utanvegahlaupara í upplandi Hafnarfjarðar frá því snemma í í vor. Til gamans má geta að Friðleifur tók saman að FH-ingar hafi samtals hlaupið 3100 km utanvega á Ítalíu um helgina.

Erfitt er að nálgast heildarúrslit úr hlaupinu en hlaup.is stefnir að því að birta þau eins fljótt og auðið er.

Hér að neðan má sjá myndir úr ferðinni sem og myndband úr 17 km hlaupinu sem gefur góða mynd af aðstæðunum sem voru vægast sagt erfiðar.

74834207 516565459125563 2866702275634528256 N Minni
74607791 2448184155501773 6400320282648641536 N Minni
Hlaupahópur minni 74649801 728866004253014 8381327652476157952 N