birt 28. ágúst 2008

Á hlaupum með astma!

Spennandi áskorun fyrir þá sem hafa astma og metnað!

Astma- og ofnæmisfélagið efnir til átaksverkefnisins Astma Maraþon í Reykjavík 2008.

Tilgangur verkefnisins er að sýna einstaklingum með astma að með góðu eftirliti og meðhöndlun þarf astmi ekki að aftra þeim frá því að taka þátt í íþróttum og að njóta sín til fulls að öðru leyti. Hápunktur verkefnisins var þátttaka í Reykjavíkurmaraþoninu laugardaginn 23. ágúst á þessu ári.

Margir íþróttamenn eru með astma og láta sjúkdóminn ekki aftra sér frá því að taka þátt af fullum krafti. Gott dæmi um slíka íþróttamenn eru Fríða Rún Þórðardóttir og Björg Árnadóttir, langhlauparar, sem báðar eru Íslandsmeistarar  í langhlaupum.

Þegar Astma- og ofnæmisfélagið tók þá ákvörðun að fara af stað með verkefnið var Fríða Rún fengin til þess að stýra því ásamt Birni Rúnari Lúðvíkssyni yfirlækni á Landspítalanum og Bjarnfríði Guðmundsdóttur hjúkrunarfræðingi hjá AstraZeneca. Jafnframt hafa læknarnir Magni Jónsson, Gunnar Guðmundsson og Sigurður Þór Sigurðarson lagt hönd á plóg við átaksverkefnið..

Verkefninu var vel tekið hjá einstaklingum með astma og hafa 30 - 40 manns verið virkir þátttakendur á undirbúningstímanum. Af  þeim skráðu sig tæplega 20 í 10 km hlaup eða lengra í Reykjavíkurmaraþoni. Fjöldi þeirra sem sýndu verkefninu áhuga var mun meiri en við áttum von á. Það endurspeglar e.t.v. hve margir vilja taka þátt í íþróttum en hafa ekki treyst sér til þess hingað til.

Stærsta umbun þátttakenda verður persónulegur sigur hvers og eins. Vonandi verður þátttaka þeirra hvatning til annarra til þess að fara að stunda göngur eða aðra líkamsrækt. Með því að sigrast á eigin takmörkunum má njóta þess að komast í mjög gott form og njóta lífsins, þrátt fyrir að hafa astma.

Styrktaraðilar verkefnisins eru lyfjafyrirtækið AstraZeneca og WorldClass.

Frekari upplýsingar veita:

Fríða Rún Þórðardóttir, sími 898 8798
Björn Rúnar Lúðvíksson, sími 864 3646

Til fróðleiks:

Allmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að um það bil helmingur þeirra, sem eru á lyfjameðferð við astma, tekur ekki lyfin sín samkvæmt læknis-fyrirmælum. Það má því leiða líkur að því að sama máli gegni um Íslendinga með astma. Það eru ógnvekjandi upplýsingar þar sem fyrir liggur að ómeðhöndlaður astmi dregur verulega úr lífsgæðum fólks og það getur ekki lifað lífinu til fulls. Ef einstaklingur er með astma nær hann ekki fullum afköstum án þess að nota lyf sem draga úr einkennum sjúkdómsins.