Af hverju prófa götuhlauparar ekki brautarhlaupin ?

birt 08. nóvember 2012

Mikil aukning hefur verið í iðkun og þátttöku götuhlaupa undanfarin ár. Von hefur verið svikin að slatti af góðum hlaupurum á ýmsum aldri myndi slæðast í keppni á brautum í vegalengdum niður í 3000m og 3000 hindrun.

  • Ef þú ert götuhlaupari, hefur þú áhuga á að mæla þig á braut í frjálsíþróttamóti?
  • Ef svo er, af hverju hefur það ekki orðið að veruleika?
  • Ef svo er ekki, þá af hverju og hvað þyrfti að koma til?

Síðustu ár hafa einkennst af hrörnun á breiddinni í millilengda og lengri hlaupum í frjálsum. Sérstaklega frá 1500 m og upp í 10k - frekar hjá körlum en konum.  Það vantar fútt í 1500, 3000, 3000h, 5k og 10k - sáuð þið Mo Farah á Ólympíuleikunum - flottar greinar - sjáðu hvar þú berð saman til gamans ;)

Frjálsíþróttafélögin taka fagnandi öllum sem vilja spreyta sig í lengri hlaupum á braut.  Þú og þínir eru velkomin.  Brautahlaupin eiga góða sögu og þarf að endurvekja fyrri stöðu. Leitaðu uppi frjálsíþróttafélag í grenndinni og taktu nokkrar æfingar með brautafólki.

Umræða um úrlausnir væri góð...

Til fróðleiks og staðfestingar má sjá þróunina frá 1950 í lengri hlaupum karla þar sem tími er reiknaður sem prósenta af Íslandsmeti svo hægt sé að setja allar vegalengdir í eitt graf sem sýnir Besta Árangur og Meðaltal 10 bestu einstaklinga.  Getur þú hjálpað til við að snúa þessari þróun við?

Stefán Þór Stefánsson í Texas.

Stærri mynd