Utanvegahlaup Kötlu Jarðvangs eða Hjörleifshöfðahlaupið var haldið í þriðja sinn þann 25. apríl síðastliðinn en þátttaka hefur aukist jafnt og þétt frá því hlaupið var fyrst haldið. Nú voru alls 15 keppendur sem hlupu en það er þátttökumet. Keppendur voru komnir víða að, m.a. frá Reykjavík, Hveragerði og úr Mýrdals- og Skaftárhreppi. Þetta verður að teljast nokkuð góð þátttaka í ljósi þess að nokkuð krefjandi aðstæður voru á hlaupstað. Höfðinn hvítur af snjó og hiti um frostmark en þó léttskýjað. Mjög kalt var í upphafi hlaups enda þátttakendur með stífa norðanáttina í fangið fyrsta kílómeterinn.
Þegar á leið lygndi töluvert og var blíðskaparveður undir lok. Í boði voru tvær vegalengdir í, 7 og 11 km. Hlaupið er ræst við áningarstað vestan megin við Höfðann og eru 7 km hlaupnir í kringum höfðann á sandinum og er endamark á sama stað. 11 km leiðin er hlaupin í kring og svo hring upp á höfðanum (200m hækkun) og endað á sama stað og ræst var. Hlaupið var framkvæmt í samstarfi Kötluseturs, Kötlu Jarðvangs og Ungmennafélagsins Kötlu. Mýrdalshreppur bauð öllum þátttakendum í sund að loknu hlaupi og Víkurskáli/Ströndin bauð öllum í kjötsúpu. Þessi viðburður á sér orðinn fastan sess í hugum margra hlaupara og verður án vafa haldinn aftur að ári liðnu.
Úrslit úr Kötlu jarðvangshlaupinu má nálgast á hlaup.is.