Hlaup.is barst samantekt um Mt. Blanc fjallahlaupunum, sem farið hafa fram síðustu daga frá Ágústi Kvaran en níu Íslendingar voru á meðal þátttakenda í MtBlanc fjallahlaupunum í ár. Ágúst er sérlegur áhugamaður um fjallvegahlaup auk þess að hafa sjálfur lagt af velli margar stórar og miklar áskoranir á þeim vettvangi. Gefum Ágústi orðið.
Þorbergi vel fagnað í markinu af íslenskum áhorfendum.Nú er Mt. Blanc fjallahlaupunum þetta árið lokið. Um er að ræða nokkur mislöng fjallahlaup sem öll fara fram í nánd við MtBlanc og sem öll enda í bænum Chamonix í Frakklandi. Hlaup þessi eru gríðarlega vinsæl og færri komast að en vilja. Undangenginn árangur í viðurkenndum fjallahlaupum er skilyrði fyrir þátttöku auk þess sem oftast þarf að draga úr gildum umsóknum.Auk þess að vera löng hlaup (vegalengdir allt frá 55 km upp í 300 km) fela þau öll í sér verulegar hæðabreytingar í grófu undirlendi alpafjallanni þar sem allra veðra er von. Það er því ekki sjálfgefið að klára slíkar þrekraunir og afföll í hlaupum er oft mikil. Undirbúningur fyrir slík hlaup kallar gjarnan á tímafrekar og strangar æfingar svo mánuðum skipti fyrirfram. Flestir sterkustu fjallaofurhlauparar heims mæta gjarnan til þátttöku ár hvert. Segja má að þarna fari fram nokkurs konar óopinber heimsmeistarakeppni fjallaofurhlaupara. Umgjörðin um hlaupin er öll hin veglegasta og upplýsingar um framgang hlaupa og einstöku hlaupara á vefnum (https://utmbmontblanc.com/en/accueil.php) er til fyrirmyndar.Meðal þátttakenda að þessu sinni voru níu íslendingar sem tóku þátt í fjórum mislöngum hlaupum:Einn í TDS(121 km, 7300 m samanlögð hækkun, tímamörk: 34:00,fjöldi hlaupara um 1800, hófst 29.8).Tveir í OCC(55 km,3500 m samanlögð hækkun, tímamörk: 14:30, fjöldi hlaupara um 1200 hófst 30.8). Fjórir í CCC(101 km,6100 m samanlögð hækkun, tímamörk: 26:30, fjöldi hlaupara um 1900, hófst 31.8). Tveir í UTMB(170 km,10000 m samanlögð hækkun, tímamörk: 46:30, fjöldi hlaupara um 2500, hófst 31.8).Það er skemmst frá því að segja að allir íslensku hlaupararnir kláruðu sín hlaup með miklum ágætum og uppskáru þannig árangur undangenginna æfinga og sjálfsaga.
Árangur og tímar ÍslendingannaÞorbergur Ingi Jónsson og Guðmundur Ólafsson tóku þátt í UTMB sem er 166 km með 9.600m hækkun. Þorbergur sem hefur verið fremsti utanvegahlaupari landsins undanfarin ár, kláraði á tímanum 25:57:11, hafnaði í 32. sæti og 22. sæti í sínum flokki (SE H). Guðmundur kláraði á 41:46:26, í 958. sæti í heildina og 109. sæti í sínum flokki (V2 H).Sigurður Kiernan, Guðmundur T. Ólafsson, Guðmunda Smáradóttir og Sigríður Þóroddsdóttir tóku þátt CCC hlaupinu sem er 101 km með 6.100m hækkun. Sigurður kláraði á 16:36:35, hafnaði 196. sæti í heildina og 52. sæti í sínum flokki. (V1H). Sigríður kláraði á 18:59:07, hafnaði í 384. sæti í heildina, 34. sæti kvenna, og 12. sæti í sínum flokki (VF 1). Guðmundur T. Ólafsson kláraði á 22:18:16, hafnaði í 748. sæti í heildina og 272. sæti í sínum flokki (V1 H). Guðmunda Smáradóttir kláraði á 22:32:43, hafnaði í 827. sæti í heildina, 90. sæti kvenna og 39. sæti í sínum flokki (V1 F).Guðni Páll Pálsson og Sigríður Einarsdóttir tóku þátt í OCC hlaupinu sem er 53 km með 3.300m hækkun. Guðni kláraði á tímanum 6:35:37 og hafnaði í 51. sæti í heildina og 39. sæti í sínum aldursflokki (SEH). Sigríður kláraði á tímanum 9:00:12 og hafnaði í 351. sæti í heildina, 48. sæti kvenna og í 2. sæti í sínum aldursflokki (V2F).Gunnar Júlíusson tók þátt í TDS hlaupinu sem er 119 km með 7.250m hækkun. Gunnar kláraði á tímanum 27:29:40 og hafnaði í 663. sæti í heildina og í 246. sæti í sínum aldursflokki (V1H).Sigríður Einarsdóttir sælleg að hlaupi loknu. Hún hafnaði í öðru sæti í sínum flokki í OCC hlaupinu. Sannarlega frábær árangur.
Árangur Þorbergs lofandi
Meðal þáttakenda að þessu sinni var Þorbergur Ingi Jónsson, sem að öllum öðrum ólöstuðum er án efa okkar fremsti fjallaofurhlaupari. Hann tók að þessu sinni þátt í UTMB hlaupinu (170 km / 100+ mílur) sem liggur hringleið í kringum MtBlanc fjallgarðinn í gegnum þrjú lönd, Frakkland, Ítalíu og Sviss. Þorbergur var fyrirfram á lista yfir sigurstranglega þátttakendur í hlaupinu sem byggði á alþjóðlegum styrkleikastigum fjallahlaupara (ITRA stig). Undanfarin þrjú ár hefur Þorbergur tekið þátt í CCC hlaupinu (101 km) og náð þar afbragðsárangri (var í 6. sæti 2017).
Að þessu sinni var hann að fara inn á nýjar lendur með því að taka þátt í sínu lengsta keppnishlaupi fram að þessu. Lengi vel var hann í um það bil 20. sæti í hlaupinu (af um 2500 þátttakendum í upphafi). Á seinni hluta hlaupsins lenti hann í tímabundnum erfiðleikum en náði sér svo aftur á strik í lokin og kláraði á frábærum tíma (25:57:11) í 32. sæti í heildina og í 22. sæti í sínum aldursflokki (Sigurtíma þessa árs, 20:44:16 átti frakkinn Xavier Thevenard). Þetta er jafnframt langbesti tími íslendinga frá upphafi í svipuðum UTMB-hlaupum undanfarinna ára. Árangur Þorbergs í þessu hlaupi er mjög lofandi um frekari afrek í þessum flokki fjallaofurhlaupa (þ.e. 100+ mílna fjallahlaup).
Tognaði vikuna fyrir hlaup en kláraði engu að síður kílómetrana 166
Það var gott hljóð í Þorbergi Inga þegar Hlaup.is heyrði stuttlega í honum í morgun. Hann var vissulega þreyttur og stífur eftir þrekraunina auk þess sem hann tjáði blaðamanni að lungun væru enn að jafna sig eftir háfjallaloftið.
Þorbergur varð fyrir því óláni að togna í kálfa fyrir réttri viku. „Það var alveg óvíst að ég gæti tekið þátt í hlaupinu yfirhöfuð. Dóri bróðir minn sem er sjúkraþjálfari kom út og ég var í meðhöndlun hjá honum alla vikuna," útskýrir Þorbergur og segist hafa þurft að hlífa kálfanum allt hlaupið. „Ég lenti auk þess í því að geta ekki nært mig í marga klukkutíma á meðan á hlaupi stóð sem og ýmsum öðrum vandræðum. Því er ég er mjög sáttur við sætið og tímann. Ég lærði ótrúlega mikið og er hrikalega ánægður að hafa klárað hlaupið því í svona hlaupi getur ansi margt farið úrskeiðis," sagði Þorbergur að lokum.
Myndir: Sigurður Magnússon og Sævar Helgason.