Sigurjón Ernir Sturluson og Helga Ingibjörg Kristinsdóttir báru sigur úr býtum í Álmanninum sem fram fór á Akranesi þann 26. júlí síðastliðinn. Tuttugu manns tóku þátt í keppninni í fallegu umhverfi og veðurblíðu á Skaganum. Keppendurnir, sjö konur og þrettán karlar hjóluðu 11 km, hlupu 550 m upp á Háahnjúk á Akrafjalli og syntu að lokum 400 metra við Langasand.
Sigurvegararnir voru verðlaunaðir með forláta álhleif frá Norðuráli auk þess sem þeir fengu gjafabréf frá Ozone.
Í karlaflokki hafnaði Símon Hreinsson í öðru sæti og Arnór Freyr Símonarson í því þriðja. Í kvennaflokki varð Sigríður Gróa Sigurðardóttir í öðru sæti og Anna Sólveig Smáradóttir hlaut brons.
Samkvæmt Skessuhorni voru aðstandendur Álmannsins í sjöunda himni með aðstæður og veður þó þeir hefðu viljað sjá örlítið betri þátttöku. Mikil stemming var bæði meðal þátttakenda og áhorfenda sem létu vel í sér heyra. Aðstandendur vilja koma á framfæri sérstökum þökkum til Björgunarfélags Akraness og annarra sem komu að framkvæmd þrautarinnar.
Nánar um Álmanninn: