Það styttist í endalokin á lengsta götuhlaupi heims, Sri Chinmoy 3100 mílna hlaupinu (um 4989 km), en þessu 52-daga hlaupi, sem fram fer í Salzburg í ár, lýkur næsta þriðjudag. Íslendingar eiga þar fulltrúa, en Nirbhasa Magee, 41 árs Íri, sem búsettur hefur verið hérlendis síðustu 7 árin tekur þátt.
Þetta er í fjórða sinn sem Nirbhasa tekur þátt; hingað til hefur hann alltaf náð að klára hlaupið á innan við 52 dögum - og náði 2. sæti í fyrra - og í ár stefnir í að hann klári, en það verður tæpt.
Á 40. deginum, 22. október, fór hann í skoðun hjá lækni hlaupsins og þar kom fram að það er ekkert athugavert við heilsu hans, annað en að hann er gjörsamlega uppgefinn. Þannig að hann er alveg búinn á því, en hleypur samt tvö maraþon á dag!
Svona hefur þetta gengið í viku. Einhvern veginn finnur hann kraftinn til að halda áfram og ef hann getur það í 5 daga í viðbót þá nær hann að klára hlaupið.
Á heimasíðu hlaupsins https://3100.srichinmoyraces.org er hægt að fylgjast með þessum merkilega viðburði. Ítalinn Andrea Marcato hefur þegar sigrað í hlaupinu, en hann kom í mark á 44. degi.
Það er hægt að senda hlaupurunum skilaboð í gegnum heimasíðuna og það myndi sannarlega hvetja Nirbhasa að fá skilaboð heima frá Íslandi.