Arnar Péturs stefnir undir 2:15:00 á næsta ári

uppfært 25. ágúst 2020

Arnar Pétursson stefnir á að hlaupa maraþon á undir 2:15:00 á næsta ári. Ekki liggur fyrir hvort það myndi duga Arnari inn á ÓL í Tokyosem fram fer á næsta ári. " Það er mjög erfitt að vita hvað þú þarft nákvæmlega að hlaupa hratt til að komast inn því endanlegur heimslisti liggur ekki fyrir fyrr en í júní á næsta ári. Eina sem ég get gert er að hlaupa eins hratt og formið leyfir mér og er það planið í Reykjavíkurmaraþoninu," segir Arnar í samtali við hlaup.is.

Eins og hlaup.is hefur áður fjallað um hefur reglum um ólympíulágmörk maraþonhlaupara verið breytt. Í einfölduðu máli þá geta sigrar í landskeppnum (Reykjavíkurmaraþon er Íslandsmót) talið meira en góðir tíma í öðrum hlaupum.

Þarf tvö góð maraþon

Eltingaleikurinn Arnars við ÓL í Tokyo er því ekki einfaldur viðureignar enda ekki um eiginlegt lágmark að keppa við. Hann er engu að síður bjartsýnn. "Ég er alltaf bjartsýnn í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Þetta er í rauninni auðveldara andlega svona. Ég hleyp bara eins hratt og ég get og sé hvert það fleytir mér. Þarf ekkert að hugsa um ákveðinn tíma heldur bara að gera mitt besta."

Arnar 2019
Arnar fer ekki með veggjum á hlaupabrautinni.

Að sögn Arnars þarf hann alltaf meira en eitt gott maraþon til að komast inn á ÓL. Allar hans áætlanir miðast við það. "Ég þarf alltaf að hlaupa tvö góð maraþon til að eiga möguleika því tvö bestu hlaupin telja inn á heimslistann. Eftir Reykjavíkurmaraþonið er stefnan að taka góða hvíld og svo setja markið á maraþon á næsta ári."

"Það er ekki víst hvaða hlaup það verður, fer allt eftir því hvernig gengur að æfa. Mögulega hleyp ég tvö maraþon með stuttu millibili á næsta ári. Markmiðið verður að hafa getuna til að hlaupa undir 2:15 á næsta ári."

Þess má geta að Íslandsmet Kára Steins Karlssonar frá 2011 er 2:17:12 en sjálfur hefur Arnar hlaupið best 2:24:13 í Hamborg 2018.

Líst vel á breytingar í RM en segir meira þurfa til

Arnar hefur eytt sumrinu í undirbúning fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem fram fer 24. ágúst næstkomandi. "Undirbúningur hefur gengið framar vonum í sumar. Það er mikilvægt að hafa fjölbreytni í æfingum og að auka álagið hægt og bítandi. Ég hef hlaupið í kringum 150 km að meðaltali í undirbúningnum og verið duglegur að taka lyftingar og styrktaræfingar samhliða hlaupunum."

Eins og hlaup.is fjallaði um í gær hefur hlaupaleiðinni í maraþonvegalengd Reykjavíkurmaraþons verið breytt. Arnar tók þátt í því ferli en hann hefur áður gagnrýnt að lokakafli leiðarinnar hafi verið andlega erfiður. Breytingarnar eru mjög jákvæðar að mati Arnars en betur má ef duga skal.

"Breytingarnar eru af hinu góða en Reykjavíkurmaraþonið á ennþá langt í land til að nálgast alvöru hlaup erlendis. Ennþá er hlaupið allt of mikið á gangstéttum sem þekkist varla í stærri hlaupum erlendis enda eru þetta götuhlaup. Einnig vantar mjög aðstoð við hlaupara t.d. varðandi drykkjarstöðvar. Þetta verður samt alltaf betra með hverju árinu og ég vona að Reykjavíkurmaraþon geti orðið samanburðarhæft við góð erlend hlaup á næstu árum," segir Arnar að lokum, greinilega mjög umhugað um skipulag og umgjörð þessa stærsta hlaupaviðburðar landsins.