Arnar Pétursson bætti sig í hálfmaraþoni í Póllandi

birt 17. mars 2019

Arnar Pétursson bætti sinn besta tíma í hálfmaraþonu í Gdynia í Póllandi í morgun. Arnar hljóp á tímanum 1:07:13 (óstaðfestur tími) en átti áður 1:07:29 frá því í Valencia fyrir ári síðan.

Arnar Péturs Pólland 2019
Arnar sigurreifur í Póllandi.

Á Instagram síðu sinni segir Arnar; „BÆTING í hálfu maraþoni. Á endalaust mikið inni en djöfull var þetta gott. Vissulega hljóp ég einn allt hlaupið, vindur upp á 9m/sek, brautin ekki beint flöt og ég að klára 170km viku en að ná samt í bætingu er geggjað. Hleyp 1:06:?? í næsta hlaupi. Aðalmarkmiðið er ennþá maraþon 7.apríl í Rotterdam og þetta er fullkomið innlegg. ."

Innistæða fyrir frekari bætingu?

Að hlaupa á þessum tíma við ekki hagstæðari aðstæður eftir þunga æfingaviku gefur vísbendingar um að Arnar á inni fyrir enn frekari bætingu. Hlaupið í Gdynia var einkar sterkt en Norðmaðurinn stórkostlegi Sondre Moen kom fyrstur í mark  á 1:01:18. Dyggir lesendur hlaup.is muna kannski eftir pistli Stefáns Gíslasonar um Sondre Moen frá árinu 2017, athyglisverð lesning það.

Þess má geta að Kári Steinn Karlsson á Íslandsmetið í hálfu maraþoni, 1:04:55 frá því í Berlín 2015. Kári Steinn bætti umrætt Íslandsmet í þriðja skipti í Berlín 2015 en metið var áður í eigu Sigurðar P. Sigmundssonar (1:07:09) í 25 ár.

Í samtali við hlaup.is fyrir tveimur vikum sagðist Arnar einmitt stefna að því að bæta tíma Sigurðar P., það tókst ekki að þessu sinni. Í þessu sambandi ber þó að nefna að þá stefndi Arnar á að hlaupa hálfmaraþon í Haag sem var frestað um síðustu helgi. Það riðlaði vissulega viðkvæmri dagskrá Arnars sem um þessar mundir er fyrst og fremst að horfa til maraþons í Rotterdam þann 7. apríl næstkomandi.

Mynd: Instagram síða Arnars Péturssonar.