Arnar vann 10 km hlaup í Þýskalandi á sínum besta tíma

birt 05. mars 2019

Arnar Pétursson kom fyrstur í mark í 10 km hlaupi í Mönchengladbach í Þýskalandi sem fram fór á laugardaginn. Tími Arnars, 31:03, er hans hraðasta til þessa, fimm sekúndna bæting. Þetta er þriðji besti tími Íslendings frá upphafi, aðeins Kári Steinn Karlsson og Jón Diðriksson hafa hlaupið hraðar. Arnar er því greinilega i feyknaformi í aðdraganda hálfmaraþons í Haag um næstu helgi, þar segir Arnar að markmiðið sé að hlaupa undir fyrrum Íslandsmeti Sigurðar Péturs Sigmundssonar og á næstbesta tíma Íslendings frá upphafi.

Arnar Bikar
Arnar með sigurlaunin.
Til alls líklegur

Arnar mun svo hlaupa maraþon í Rotterdam þann sjöunda apríl næstkomandi, spennandi verður að sjá hvort Arnar nái að höggva nærri 2:20 þar. Ljóst er að Arnar er til alls líklegur og æfingabúðirnar í Bandaríkjunum og Kenýu síðustu mánuði eru að skila góðum árangri.

Arnar mun dvelja í Þýskalandi næstu vikur þar sem hann mun undirbúa sig fyrir komandi verkefni og hlaupasumarið þar sem bæði Smáþjóðaleikarnir og Evrópubikar landsliða er á dagskrá. Í samtali við Hlaup.is segist Arnar hafa mikinn áhuga á að ná í verðlaun þar. Hlaup.is mun að sjálfsögðu fylgjast náið með Arnari á næstunni og upplýsa íslenska hlaupasamfélagið um árangur þessarar frábæru fyrirmyndar.

Arnar P
Arnar fremstur meðal jafningja, eins og oft áður.

Uppfært: Sigurður P. Sigmundsson hljóp 10 km götuhlaup í London (Walthamstow) á 31:03 mín í London árið 1985. Arnar er því búinn að jafna þann árangur.