Áskorun á alla hlaupahópa landsins....

birt 02. mars 2006

Hlaup og skíðaganga!

Við fórum 4 félagarnir frá Ísafirði til Ítalíu  og Þýskalands um mánaðarmótin janúar - febrúar  í vetur til að keppa í skíðagöngumótum, svokölluðum World Loppet skíðagöngum sem ætlaðar eru fyrir hinn almenna útvistarmann sem og keppnismenn í fremstu röð í heiminum. Ítalíugangan var 70 km en göngurnar í Þýskalandi eru 50 km á laugardegi og 50 km á sunnudegi. Hópurinn samstóð af Einari Yngvasyni, Gunnari Þór Sigurðssyni, Kristbirni R.Sigurjónssyni og eiginkonu hans Rannveigu Halldórsdóttur.

Hvað eigum við fjögur sameiginlegt fyrir utan skíðin? Jú við höfum öll ánægju af að hlaupa enda stundum við hlaupin vel yfir sumartímann, mætum alltaf í Óshlíðarhlaupið, http://oshlid.hsv.is (núna 1. júli) í lok júní þó svo skíðatímabilinu ljúki aldrei fyrr en í lok apríl með okkar árvissu Fossavatnsgöngu www.fossavatn.com (núna 29. apríl) og hlaupin tiltölulega nýhafin, þá er ánægjan að vera úti með góðum félögum gulls ígildi.

Þú hlaupari góður sem ert vanur að hlaupa heilt maraþon ferð léttilega 50 km á gönguskíðum svo fremi sem jafnvægið sé þokkalegt, ef það er of mikið má fara 20 km, 10 km, eða 7 km. Allir hlaupahóparnir hvort sem þeir eru í Reykjavík eða landsbyggðinni, Lauga-Skokk með Pétur Franz í fararbroddi, Hásarar með Pétur Helga í forsvari (hann getur nú ekki skorast undan ítrekuðum tilmælum okkar) Langhlauparafélag Reykjavíkur, þar á meðal eru okkar bestu lang (lang) hlauparar. Grafarvogshópurinn með Erlu Gunnarsdóttur og allir hinar sem ég gleymi að nefna.

Hér með skorar hlaupahópurinn Riddarara Rósu - Ísafirði á ykkur öll að koma vestur í sæluna og prufa eitthvað nýtt, ferskt og skemmtilegt. Og að slík sæla  fyrirfinnist á Ísafirði er e-ð sem allir ættu að íhuga. Við höfum t.d. heyrt um hlaupara í ÍR-skokk sem ætla í Vasa gönguna í Svíþjóð, þessir kappar ættu að sjálfsögðu að vera fyrstir til að skrá sig í stærstu og fjölmennustu skíðagöngukeppni á Íslandi.

Hvað þarf til að fá hinn almenna hlaupara til stunda gönguskíðin samhliða hlaupum, jú áhuga á útvist (hvaða hlaupari hefur það ekki?), snjóinn (hann er nægur á Ísafirði, gangan okkar hefur aldrei fallið niður vegna snjóaleysis) þó lítill sé hann í höfuðborginni, og síðast en ekki síst að halda sér í góðu líkamlegu formi. Allt góð og gild markmið sem allir geta tekið undir.

Hvað er betra en fyrir ykkur hlauparar góðir en að koma vestur til Ísafjarðar og kynnast gönguskíðaparadís okkar Ísfirðinga, koma og taka þátt í hátíðarhöldum í tengslum við Fossavatnsgönguna, stemmningin við skráninguna, hitta félaga í pastaveislunni á föstudagskvöldinu og njóta þess að drekka og snæða hið víðfræga Fossavatnskaffi að göngu lokinni.

Við ítrekum áskorun okkar til ykkar og hvetjum ykkur til að mæta í Fossavatnsgönguna þann 29. apríl 2006.

Kristbjörn R. Sigurjónsson, áhugamaður um skíðagöngu og hlaup.