Kæru hlauparar.
Eins og mörg ykkar vita þá hóf ég störf á Kleppi í haust. Í 3 mánuði hef ég verið að byggja upp þjálfun á staðnum þar, bæði útivera, ganga og skokk og yoga, hugleiðslu osfrv. Það sem hefur verið mesti "höfuðverkurinn" minn er hörmulega lélegur skóbúnaður skjólstæðinga minna. Þetta fólk, sem margt hefur átt við geðheilsubrest árum saman, hefur mjög lítið á milli handanna hvað varðar peninga. Sumir hafa einungis um 30 þús krónur á mánuði og það er því mjög erfitt að fara fram á að fólk kaupi sér góða skó.
Í kvöld þegar ég var úti að skokka og hugsa um hvað ég gæti gert þá kom upp sú hugmynd hjá mér að biðla til hlaupara Íslands um að veita þessu fólki styrk í formi þess að gefa skó. Lumar þú á gömlum hlaupaskóm sem þú ert hætt/ur að nota, ekki ónýta kannski en margir luma á skóm sem þeir hafa ekki "fílað" eða eru af einhverjum ástæðum hættir að nota.
Ef svo er þá þigg ég skóna fyrir hönd skjólstæðinga minna á Kleppi. Einnig ef þú/þið ættuð íþróttafatnað sem þið eruð hætt að nota (ekki með mikilli svitafýlu) og vilduð gefa til góðgerðamála þá þigg ég það líka. Ég tek við ÖLLU og ég bið ykkur frá mínum innstu hjartarrótum að veita þessum málalið athygli og hver veit nema að Kleppur mæti á næsta ári í RVK maraþoni með skokkhóp í skóm og fötum frá ykkur kæru hlauparar Íslands!!!
Ég bið ykkur um að leggja mér lið við að hjálpa þessu fólki að komast út að hlaupa/skokka/ganga svo að þau geti kannski nýtt sér þessa frábæru leið að hlaupa til að ná meiri bata.
Ljóskveðja til ykkar allra, Martha Ernstsdóttir, hlaupari (mernstsdottir@hotmail.com)