Barðsneshlaupið um Verslunarmannahelgina

birt 26. júlí 2007

Hvað á að gera um verslunarmannahelgina?  - Nú, auðvitað hlaupa Barðsnes!

Barðsneshlaup verður venju samkvæmt haldið í Neskaupstað um verslunarmannahelgina, n.t.t. laugardaginn 4. ágúst. Raunar er nú um tvö hlaup að ræða, þ.e. hið hefðbundna 27 km Barðsneshlaup og hið 13 km Hellisfjarðarhlaup, sem er eiginlega hálft Barðsneshlaup þar sem hlaupinn er síðari leggur þess hlaups. Unnið er að gerð heimildarmyndar um Barðsneshlaup og náttúru Norðfjarðarflóa og verður hlaupið og undirbúningur þess kvikmyndaður.

HVAÐ ER BARÐSNESHLAUP?
Þetta sumarið eru 10 ár síðan stofnað var til Barðsneshlaupsins og verður nú hlaupið í 11. skipti. Barðsneshlaup er 27 km víðavangshlaup sem hlaupið er frá Barðsnesi sunnan Norðfjarðarflóa til Neskaupstaðar um firðina þrjá er ganga inn úr flóanum - Viðfjörð, Hellisfjörð og Norðfjörð. Brautin sem hlaupin er liggur um fjölbreytilegt landslag: móa, fjörur, kjarr og urð, ár, fjallshlíðar, troðninga og malbik. Þar sem hlaupið byrjar á Barðsnesi utanvert í Norðfjarðarflóanum eru hlauparar ferjaðir þangað frá Neskaupstað þar sem hlaupið svo endar. Björgunarsveitin Gerpir hefur séð um að ferja þátttakendur, aðstoð og öryggiseftirlit frá sjó. Læknar og hjúkrunarfólk Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað annast heilsugæslu.

LÝSING Á HLAUPABRAUTINNI 
Barðsneshlaupið er víðavangshlaup um fjölbreytt land, móa, mýrar, fjörur og tún. Fyrstu sjö kílómetrana er hlaupinn gamall traktorsruðningur, þá kinda- og hestagötur en síðustu 4,5 kílómetrarnir eru malbikaður þjóðvegur. Hlaupaleiðin er merkt stikum og símastaurum. Nokkur hækkun er í hlaupinu. Farið er yfir Viðfjarðarnes í 80 metra hæð og Götuhjalla í 197 metrum. Ekki er mikið um eggjagrjót eða hættur vegna bratta, en Götuhjallinn Norðfjarðarmegin (niðurleið) er brattur vel. Í botnum fjarðanna eru straumlitlar ár með malarbotni. Viðfjarðará er brúuð en aðrar ár þarf að vaða. Norðfjarðará getur orðið óvæð og er þá ferjað yfir. Drykkjarstöðvar með vatni og íþróttadrykkjum eru á fjórum stöðum; í Viðfirði, Hellisfirði, á Götuhjalla og í Norðfjarðarsveit. Vatn víða að hafa á leiðinni úr fjallalækjum og því gott að hafa ílát meðferðis.

Skipuleggjendur hlaupsins leggja mikið upp úr því að sem flestir taki þátt, hvort sem þeir kjósa að hlaupa, skokka eða ganga. Allir sem eru bærilega ásigkomnir líkamlega eiga að geta tekið þátt og notið þess að láta fætur sína bera sig um fjörur, móa og fjöll.

ÖNNUR HLAUP Í BOÐI Á NEISTAFLUGI UM VERSLUNARMANNAHELGI
Barðsneshlaupið er nú orðinn fastur liður í Neistaflugshátíð Norðfirðinga um verslunarmannahelgina. Til að sem flestir geti notið þess að taka þátt í skipulögðu hlaupi um náttúruna hefur verið komið á hálfu Barðsneshlaupi, sk. Hellisfjarðarhlaupi sem er 13 km hlaup sem hlaupið er frá Hellisfirði sömu leið og í Barðsneshlaupinu fyrir Hellisfjarðarmúlann inn í Norfjörð og út til Neskaupstaðar; þ.e. sömu leið og í seinni hluta Barðsneshlaupsins.

SAGA BYGGÐARINNAR
Byggð um Suðurbæi Norðfjarðarflóa, þ.e. í Viðfirði og Hellisfirði, fór í eyði um 1955. Liggur hlaupaleiðin um tún flestra eyðibýlanna. Í Viðfirði var áður höfuðból og mjög reimt (sbr. Viðfjarðarundrin eftir Þórberg). Þar stendur reisulegur bær frá 1938 sem Guðjón Samúelsson arkitekt teiknaði. Þjóðleiðin til Neskaupstaðar lá yfir Dys og út í Viðfjörð til ársins 1949, en þá var lagður vegur yfir Oddsskarð. Fram að því voru bílar og farþegar ferjaðir með bát frá Viðfirði til Neskaupstaðar. Bæjaröð Suðurbæjanna er þessi: Barðsnes, Gerði (Barðsnesgerði), Gerðisstekkur, Stuðlar, Borg, Viðfjörður, Hellisfjörður og Sveinsstaðir í Hellisfirði.

NORÐFIRÐINGURINN ÞINDARLAUSI
Síðustu árin hefur ungur Norðfirðingur, Þorbergur Jónsson, sigrað í Barðsneshlaupinu með töluverðum yfirburðum. Á þeim árum sem Þorbergur hefur hlaupið hefur hann bætt tíma sinn mikið og er nú kominn fast upp að tveimur tímum með tímann 2:00:29. Þrátt fyrir að góðir og reyndir langhlauparar hafi gert atlögur að þessum besta tíma hlaupsins hefur hann ekki enn verið bættur og Þorbergur sigraður og því eiga hlauparar landsins enn það skemmtilega og ögrandi verkefni eftir að sigrast á tveggja tíma múrnum - og leggja Nobbarann!

VEFUR HLAUPSINS
Flestum sem eru í þokkalegu líkamlegu ásigkomulagi ætti að vera fært að taka þátt í Barðsneshlaupinu, enda um skemmtilega og fjölbreytilega leið að fara sem tilvalið er að skokka og ganga á víxl. Ekki er þó verra að hefja undirbúning snemma. Á endurbættum vef hlaupsins er hægt að fá allar upplýsingar um hlaupið og átta sig á aðstæðum með hjálp korta og frásagna hlaupara. Á vefnum er einnig hægt að skrá sig í hlaupið, en þeir sem skrá sig í tíma fá verulegan afslátt af þátttökugjaldinu. Vefur Barðsneshlaupsins er á http://www.islandia.is/bardsneshlaup.