Blaðamaður á Irunfar.com: Þorbergur Ingi er "one to watch" á HM í utanvegahlaupum

birt 24. október 2016

Tignarlegir langt utan vega, fv. Þorbergur, Örvar og Guðni.Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupi fer fram í Portúgal um næstu helgi og íslenska liðið er að leggja lokahönd á undirbúninginn. Liðið samanstendur af þeim Þorbergi Inga Jónssyni, Guðna Páli Pálssyni og Örvari Steingrímssyni.Rjóminn af þeim bestu taka þáttMargir af sterkustu utanvegahlaupurum heims verða á meðal þátttakenda en hlauparar eru samtals frá 40 löndum. Hinn virti vefur irunfar.com birti í dag frétt þar sem farið er yfir sviðið fyrir heimsmeistaramótið og farið yfir sigurstranglegustu liðin.Vefsíðan er ein af þeim er leiðir umfjöllun um utanvega- og ofurhlaup á alþjóðavísu. Til marks um útbreiðlu Irunfar er síðan með 58 þúsund fylgjendur á Facebook.

Íslenska liðið stendur frammi fyrir svakalegri áskorun en hlaupaleiðin er 85 km með 4680m hækkun.

Okkar menn til alls líklegir
Samkvæmt kollegum okkar á irunfar.com eru núverandi heimsmeistarar Frakka líklegir ásamt, Spánverjum, Bandaríkjamönnum, Bretum, Nepölum og Norðmönnum.

Þá tekur blaðamaður Irunfar einnig til athyglisverða og sterka hlaupara frá öðrum þjóðum. Eða eins og blaðamaður orðar það "other men to watch" - þar er á lista enginn annar en okkar eigin Þorbergur Ingi Jónsson. Tekið er fram að Þorbergur hafi verið verið níundi á síðasta heimsmeistaramóti og hafnað í 16. og 9. sæti á tveimur síðustu CCC hlaupum.

Þorbergur hefur eins og glöggir hlaupaáhugamenn hafa tekið eftir, verið í gríðarlegri framför síðustu misserin og er ásamt félögum sínum í íslenska liðinu til alls líklegur í Portúgal um næstu helgi. Áhugamenn hér heima eru í það minnsta við öllu búnir enda hefur árangur Íslendinga í utanvegahlaupum á alþjóðavísu verið frábær upp á síðkastið og hefur Þorbergur þar farið fremstur í flokki ásamt Elísabetur Margeirsdóttur.

Fyrir áhugasama er skemmtilegt að fylgjast með íslensku strákunum á Facebook síðu liðsins.