Breyttar vegalengdir og hlaupaleiðir í Miðnæturhlaupinu

birt 08. apríl 2012

Miðnæturhlaupið mun taka nokkrum breytingum í ár, eins og fram kemur á vef Reykjavíkurmaraþons, en þeir hafa umsjón með hlaupinu.

Í stað 3 km, 5 km og 10 km hlaups sem hlaupin hafa verið sem hringir í Laugardalnum, eru vegalengdirnar núna 5 km, 10 km og 21,1 km (hálft maraþon).

Eins og áður verður 5 km hringurinn hlaupinn í Laugardalnum en þó ekki sama leið og undanfarin ár.

Ný 10 km leið verður farin frá Laugardalnum, upp að stíflunni í Elliðaárdal og til baka.

Í fyrsta skipti í ár er boðið upp á hálft maraþon í Miðnæturhlaupinu og er farið frá Laugardalnum og alla leið upp Elliðaárdalinn og framhjá svæði Fáks í Víðidal. Þaðan er farið upp að Rauðavatni og Morgunblaðshúsinu. Síðan hlaupið yfir Grafarholt og niður Grafarvoginn. Frá bryggjuhverfinu í Grafarvogi er farið inn í Laugardalinn aftur.

Það verður gaman að sjá hvernig hlauparar taka þessum breytingum og sérstaklega er ánægjulegt að sjá meira af möguleikum á að taka þátt í hálf-maraþon hlaupi.

Sjá nánari upplýsingar í dagbók hlaup.is.


Frá ræsingu í Miðnæturhlaupinu 2011.