Elín Edda Sigurðardóttir fór hamförum í Hamborgarmaraþoninu í Þýskalandi í dag þegar hún hljóp á besta tíma íslenskrar konu í tuttugu ár. Hún hljóp á tímanum 2:49:00 sem fleytir henni í annað sæti á afrekaskrá íslenskra kvenna í maraþoni. Handhafi Íslandsmetsins er Martha Ernstdóttir, metið er 2:35:15 frá því í Berlín árið 1999.
Frábær tími í fyrstu tilraun
Þetta er glæsilegur árangur hjá Elínu Eddu sem hingað til hefur einbeitt sér að styttri vegalengdum en samkvæmt heimildum hlaup.is er þetta hennar fyrsta maraþon. Tími Elínar Eddu dugði henni í 28.sæti kvenna í maraþoninu og í 109 sæti í heild. Millitími hennar eftir hálfmaraþon var 1:23:59 klst sem sýnir að hlaupið hefur verið mjög jafnt hjá henni.
Þessi frábæri hlaupari er greinilega í feyknaformi en fyrir mánuði síðan hljóp hún frábært hálfmaraþon í Mílanó þar sem hún tyllti sér í annað sæti á afrekalista kvenna, einmitt á eftir goðsögninni Mörthu Ernstdóttur.
Fleiri Íslendingar voru á ferðinni í Hamborg í dag sem og í London maraþoninu, margir á frábærum tímum.
Tímar Íslendinganna verða birtir á hlaup.is í kvöld.
Fréttin hefur verið uppfærð.