birt 20. september 2004

Hér með er boðað til stofnfundar félags 100 kílómetra hlaupara.  Félagsmenn eru allir sem lokið hafa viðurkenndu 100 km keppnishlaupi.  Þeir sem einu sinni eru orðnir félagar verða það til æviloka og lengur ef vill. 
 
Markmiðið er að efla samheldni og samkennd félagsmanna.  Félagsmenn munu miðla af reynslu þeirra til þeirra sem eru að undirbúa sig eða hafa hug á að undirbúa sig fyrir keppnishlaup 100 km eða lengri.  Það gerist meðal annars með því að félagsmenn taka mjög gjarnan þátt í keppnishlaupum á styttri vegalengdum svo sem maraþoni. 
 
Félagið stefnir að því að efna til fyrsta 100 km keppnishlaupsins á Íslandi innan tíðar.
 
Stofnfundurinn verður haldinn að loknu Þingstaðahlaupi laugardaginn 25. september næstkomandi í Sundlaug Vesturbæjar og hefst um það bil kl. 14 til 15 eftir því hvenær Þingstaðahlaupinu lýkur. Nánari upplýsingar um Þingstaðahlaupið eru á eftirfarndi slóð:

http://www.raunvis.hi.is/%7Eagust/olhopur.html
 
Eins og hlaupurum mun kunnugt hefur þeim Íslendingum sem hlaupið hafa 100 km keppnishlaup fjölgað um 150% á árinu 2004.  Hefur því starfað óformlegur undirbúningshópur að stofnun þessa félags undanfarna mánuði.  Hefur nú náðst alger samstaða um stofnun félagsins og er þess vænst að allir sem rétt eiga á félagsaðild komi á stofnfundinn.
 
Stofnfundurinn verður haldinn í heyranda hljóði og geta því áhugasamir fylgst með.