Fire and Ice Ultra hafið á Norðurlandi

birt 28. ágúst 2018
Keppendur í hlaupinu glíma við fjölbreytta íslenska náttúru.Hálendishlaupið, Fire and Ice Ultra hófst í sjöunda sinn á sunnudag. Hlaupið sem fram fer á Norðurlandi tekur sex daga en hlauparar hlaupa ýmist 250 km eða 125 km og enn aðrir taka þátt í liðakeppni. Hlaupinu lýkur á Mývatni á næstkomandi laugardag. Keppendur þurfa að bera allan búnað sjálfir en þó sjá skipuleggjendur um að tjalda fyrir þátttakendur.Aðeins einn Íslendingur heldur uppi merkjum Íslendinga í ár, Einar Eyland sem jafnframt er sá eini sem hefur tekið þátt á hverju ári frá því hlaupið hófst 2012. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í Fire and Ice Ultra en um 70 þátttakendur frá 20 löndum taka þátt í ár. Sumir koma langt að td. frá Ástralíu, Tævan, Rúmeníu, Suður Afríku og Rússlandi.

Sá frægasti í hópnum heitir Tommy Chen og hefur unnið sambærileg hlaup víða um heim.

Hægt verður að fylgjast með framvindu hlaupsins á Facebooksíðu Fire and Ice Ultra en þar munu birtast myndir og myndbönd af þátttakendum. Veðurspáin er köld en hópurinn er vel búinn og góð stemming meðal hlauparanna.