Fjallvegahlaup Stefáns á leið í bókahillurnar - hlauparar boðnir í útgáfuhóf

birt 12. mars 2017

Hlauparar eru boðnir velkomnir til útgáfuhófs á Kex Hostel næsta laugardag, 18. mars kl. 14. Tilefnið er útgáfa bókarinnar Fjallvegahlaup og sextugsafmæli höfundarins, Stefáns Gíslasonar. Bókaútgáfan Salka og Stefán standa fyrir hófinu en þar verður hægt að kaupa bókina á sérstöku kynningarverði, auk þess sem boðið verður upp á léttar veitingar, lítils háttar fróðleik og nokkra skemmtun. Í bókinni er að finna lýsingar á þeim 50 fjallvegum sem Stefán hefur hlaupið yfir síðustu 10 árin, ásamt frásögnum og fjölda mynda frá þessum ferðalögum. Allir eru velkomnir til þessa mannfagnaðar. Hlaup.is hvetur hlaupara til að mæta og heiðra Stefán fyrir framlag hans til íslenska hlaupasamfélagsins.

Um Fjallvegahlaup Stefáns Gíslasonar
Þegar Stefán varð fimmtugur vorið 2007 ákvað hann að gera hlaupin að lífstíll. Ekki að hann hafi verið ókunnur hlaupunum áður en hann breytti áherslunum svo um munaði. Hann einsetti sér að hlaupa yfir 50 fjallavegi á næstu tíu árum. Hlaup.is tók viðtal við Stefán um verkefnið árið 2014 þegar hann var búinn með 34 af 50 fjallvegum.