Flandrasprettir framvegis á þriðjudagskvöldum

uppfært 25. ágúst 2020

Hinir mánaðarlegu Flandrasprettir í Borgarnesi verða framvegis hlaupnir á þriðjudagskvöldum í stað fimmtudagskvölda. Með þessu er komið í veg fyrir að sprettirnir lendi á sömu kvöldum og leikir Skallagríms í meistaraflokki karla í körfubolta, en fimmtudagar eru hefðbundnir leikdagar á þeim vettvangi. Allmargir hlauparar í Borgarnesi tengjast körfuboltanum beint eða óbeint og auk þess nýta bæði Flandri og Skallagrímur íþróttamiðstöðina í Borgarnesi sem heimavöll. Því telja forsvarsmenn Flandra þriðjudagskvöldin vænlegri til keppnishlaupa en fimmtudagskvöldin.

Flandrasprettir verða sem sagt hér eftir haldnir þriðja þriðjudagskvöld í hverjum mánuði frá október og fram í mars, en að öðru leyti verður öll framkvæmd sprettanna með sama hætti og verið hefur frá upphafi. Í samræmi við þetta verður næsti sprettur þriðjudaginn 19. nóvember nk. og desemberspretturinn þriðjudaginn 17. des. Það er von forsvarsmanna Flandra að þessi breyting mælist vel fyrir og heimamenn jafnt sem aðkomumenn fjölmenni í næstu spretti sem aldrei fyrr.