Flesta lesendur dreymir um New York maraþonið

birt 11. febrúar 2014

New York maraþonið er það maraþon sem nýtur mestrar hylli meðal lesenda hlaup.is. Í könnnun sem staðið hefur á forsíðu hlaup.is undanfarnar vikur var spurt;"Hvert er þitt draumamaraþon?" Niðurstöðurnar komu kannski ekki sérstaklega á óvart en New York sigraði örugglega með 32% atkvæða. Það er því greinilega draumur margra lesenda að leggja New York maraþonið enda segja þeir sem reynt hafa að algerlega ógleymanlegt sé að hlaupa maraþonið í "Stóra eplinu."

Berlínar maraþonið sem notið hefur vaxandi vinsælda hjá íslenskum hlaupurum síðustu ár var næstvinsælasta hlaupið með 20% atkvæða. En brautin í Berlín þykir vera einkar hröð og þá fer hlaupið fram að hausti þegar veður er gjarnan milt í hinni skemmtilegu höfuðborg Þjóðverja. Boston og Tokyo eru skammt undan með 15% og 11% atkvæða. Maraþonin í London og Chicago virðast heilla minna en hin sem spurt var um, en aðeins 5%  kjósenda völdu London og 3% Chicago.Möguleikinn "annað" fékk heil 14% atkvæða og má gera ráð fyrir að margir hafi þar í huga maraþon í borgum eins og Munchen eða Amsterdam sem fjöldi Íslendinga hefur tekið þátt í á undanförnum árum. Um 700 manns greiddu atkvæði í könnuninniRétt er að minna lesendur á samantekt hlaup.is um sex stærstu maraþonin sem má lesa hér. Þá geta áhugasamir skoðað viðtal sem hlaup.is tók við Hugrúnu Hannesdóttur, hjá Bændaferðum. En Bændaferðir bjóða upp á ferðir og skráningar í mörg stærstu maraþon veraldar.Hlaup.is minnir lesendur á að taka þátt í nýrri könnun á forsíðu þar sem spurt er um uppáhaldshlaupavegalengd. Hér má sjá niðurstöður eldri kannana á hlaup.is.