Frábær árangur í eyðimerkurmaraþoninu

birt 11. apríl 2009

Dagana 29.3. - 4.4.2009 fór fram 24. eyðimerkurmaraþonið í Marokko („Marathon des Sables"). Meðal þátttakenda var Ágúst Kvaran (rásnúmer 177), sem er gamalreyndur í langhlaupum og á að baki nokkur 100 km hlaup og Justin Bjarnason (rásnúmer 271), sem er af íslensku bergi brotinn, búsettur í Englandi.

Þeir kláruðu báðir hlaupið, Ágúst í 140 sæti og Justin í 193 sætinu. Einnig var Ágúst í 9. sæti í sínum aldursflokki af 103 í þeim flokki. Fyrir þá sem vilja skoða meira er best að fara á vesíðu hlaupsins: http://www.saharamarathon.co.uk/. Þar er mikið af myndum og vídeóupptökum frá keppninni. Helstu tímar Ágústar eru í eftirfarandi töflu:

ÁfangiHeildartími hlauparaTími eftir 1sta hlaupara Meðalhraði km/klst

Lokatími

28H44''11

12H16''45

7,04

Áfangi 4

05H16''19

2H23''56

8,00

Áfangi 3

14H43''17

6H34''55

6,18

Áfangi 2

04H29''00

1H47''43

8,03

Áfangi 1

04H15''35

1H41''30

7,75

Um Sahara eyðimerkumaraþonið
Sahara eyðimerkurmaraþonið er áfangahlaup þar sem hlaupið er í eyðimörkinni sunnan Atlasfjalla í suðausturhluta Marocco. Nákvæmri hlaupaleið og vegalengd er haldið leyndri fram á síðasta dag fyrir hlaup.  Hlaupin eru 6 hlaup á 7 dögum, samtals um 245 km.  Fyrstu þrjá dagana eru ca 30 - 40 km hlaup hvern dag. Á 4. degi er ofurmaraþon, dæmigert 75 - 80 km. Að loknum 5. degi, sem er hvíldardagur, er hlaupið maraþon (42.2 km)  og  loks endað á 7. degi með um 15 - 20 km hlaupi. Undirlag er fjölbreytt, allt frá lausum sandi til stórgrýtis. Hlaupið er yfir fjallgarða og í uppþornuðum árfarvegum, svo nokkuð sé nefnt. Keppendur bera matarbirgðir (þurrmat) og eldunar- og svefnbúnað frá fyrsta degi fyrir allt tímabilið, en fá afhent vatn með reglulegu millibili. Dvalist er í tjaldbúðum í eyðimörkinni milli hlaupa. Hiti um hádaginn getur farið upp undir 50oC, en niður fyrir 10oC að nóttu. Yfir 800 keppendur voru skráðir til þátttöku, frá um 39 þjóðlöndum. Hlaupið er skipulagt af Frökkum í samvinnu við innfædda.  Fylgst er með hlaupinu og það myndað af sjónvarpsstöðinni Eurosport. Vefsíður hlaupsins eru:

http://www.darbaroud.com/index_uk.php  og
http://www.saharamarathon.co.uk/