Fræðslufundaröð Laugaskokks og World Class - Utanvegahlaup og ofurmaraþon

birt 08. mars 2013

Fræðslufundaröð Laugaskokks og World Class býður upp á fyrirlestur um utanvegahlaup og ofurmaraþon miðvikudaginn 13. mars 2013 kl. 20:00 í veitingasal Lauga.

Áttundi fundur vetrarins í fræðslufundaröð Laugaskokks og World Class er helgaður undirbúningi og keppni í utanvegahlaupum og ofurmaraþonum.
Fyrirlesarar eru Elísabet Margeirsdóttir næringarfræðingur og Björn Margeirsson vélaverkfræðingur. Auk þess verður kynning á Fire and Ice hlaupinu og OMM rathlaupinu.

Björn fjallar um undirbúning sinn fyrir sitt eina Laugavegshlaup (2012) en í því bætti hann brautarmetið um rúma hálfa mínútu með tímanum 4:19:55 klst. Yfirlit verður gefið um æfingamagn (tempó/brekku/LSD-hlaup, hjól, styrktarþjálfun og aðra krossþjálfun), næringarinntöku, millitíma, upplifun og fleira í hlaupinu. Loks verður ljóstrað upp um þau fjölmörgu atriði, sem betur mættu fara og aðrir hlauparar gætu þar með lært af.

Elísabet fjallar um reynslu sína af Laugaveginum og lengri ofurhlaupum. Hún ætlar að gefa áheyrendum ráð varðandi undirbúning fyrir lengri fjallahlaup. Hvaða kílómetra magn þarf til, hversu oft þarf að fara upp og niður Esjuna og fleiri skemmtilegir þættir. Einnig ætlar Elísabet að fara yfir hentugan útbúnað og hvað er mikilvægast að leggja áherslu á. Og síðast en alls ekki síst, orkuinntaka í lengri þolraunum. Orkuinntaka og magavandamál getur orðið ofurhlauprum að falli og er nauðsynlegt að skipuleggja sig vel í þeim málum.

Björn hefur keppt fyrir landslið Íslands í frjálsíþróttum síðan 1996, einkum í 800 og 1500 m hlaupum. Hann er Íslandsmethafi í 800 m, 1000 m, mílu og 2000 m hlaupum innanhúss, var valinn frjálsíþróttakarl ársins 2006 og hefur keppt á þremur stórmótum í frjálsíþróttum: HM innanhúss 2006, EM utanhúss 2007 og EM innanhúss 2007. Besti árangur á stórmóti er 11. sæti af 22 keppendum í 1500 m hlaupi innanhúss (3:46.25 mín) á EM innanhúss 2007. Síðastliðin ár hefur hann reynt fyrir sér í maraþoni, á best 2:33:57 klst. þegar hann sigraði í Reykjavíkurmaraþoni 2010. Björn hefur verið sjálfþjálfaður að mestu leyti gegnum sinn hlaupaferil.

Elísabet hefur hlaupið sér til skemmtunar og yndisauka í næstum tíu ár. Hún hefur hlaupið Laugaveginn síðastliðin fjögur ár með góðum árangri. Einnig hefur hún tekið þátt í lengri fjallahlaupum erlendis (Ultra Trail du Mont Blanc) síðustu tvö ár þar sem hún hefur ná frábærum árangri og verið framarlega í röð kvenna. Elísabet starfar við næringarráðgjöf og aðstoðar meðal annars hlaupara og annað íþróttafólk við að ná árangri á æfingum og keppnum með réttri næringu.

Í lok fundar verður síðan kynning á Fire and Ice hlaupinu og OMM rathlaupinu. Fire and Ice hlaupið er 250 km. 7 daga hlaup, sem hefst 25. ágúst nk. og OMM rathlaupið er tveggja sólarhringa hlaup sem haldið verður 25. - 26. maí nk. þar sem tveir hlauparar eru í liði.

Aðgangur er ókeypis.