Miðvikudaginn 18. janúar 2012 kl. 20:00 í veitingasal Lauga verður fræðslufundur hjá Laugaskokki í World Class um undirbúning og keppni í Laugavegshlaupinu og öðrum lengri utanvegahlaupum.
Fyrirlesari er Þorbergur Ingi Jónsson, vél- og orkutæknifræðingur.
Á fyrirlestrinum fjallar Þorbergur um nauðsynlegan undirbúning fyrir Laugaveginn, praktískar æfingar, lýsir hlaupaleiðinni, keppnisstrategiu, brautaraðstoð, útbúnaði, og fjölmörgum öðrum praktískum þáttum sem snúa að því að geta tekið þátt í löngu utanvegahlaupi með góðum árangri. Einnig verður stuttlega fjallað um önnur utanvegahlaup á Íslandi.
Þorbergur hefur til margra ára verið í fremstu röð íslenskra lang- og millivega hlaupara og hefur hann einkum lagt stund á utanvegahlaup. Hann á brautarmet í flestum utanvegahlaupum hérlendis, m.a. Laugaveginum, Barðsneshlaupinu og Jökulsárhlaupinu. Brautarmet hans í Laugavegshlaupinu er frá árinu 2009, 4:20:31.
Fyrirlesturinn er ætlaður bæði vönum utanvegahlaupurum sem vilja bæta árangur sinn og þeim sem hyggjast æfa fyrir utanvegahlaup í fyrsta sinn.
Ferðakynning frá Bændaferðum
Áður en kynning Þorbergs hefst verður stutt kynning á tveimur ferðum tengdum utanvegahlaupum sem Bændaferðir standa fyrir á árinu. Annarsvegar einnar viku æfingabúiðr fyrir fjallahlaupara 7. - 14. júní nk. og hins vegar þátttaka í Zugspitz Ultratrail fjallahlaupinu í Þýskalandi, 21. - 26. júní nk.
Ferð 1 - Æfingabúðir fjallahlauparans
- 7. - 14. júní 2012
- Fararstjóri: Sævar Skaptason
- Þjálfari: Julia Böttger
- Höfuð markmið ferðarinnar er að njóta þess að hlaupa um Alpalandslag, um engi og tún, eftir skógarstígum, fjallastígum og upp á fjallatinda. Þessi ferð er því upplagður undirbúningur fyrir alla þá sem stefna á fjallahlaup á árinu og vilja kynnast leyndardómum fjallahlaupanna.
Ferð 2 - Zugspitz Ultratrail fjallahlaup
- 21. - 26. júní 2012
- Fararstjóri: Sævar Skaptason
- Markmið ferðarinnar er að taka þátt í fjallahlaupi í kringum hæsta fjall Þýskalands, Zugspitze, en tvær vegalengdir eru í boði, Supertrail 71,5 km og Ultratrail 103 km.
Ferðaþjónusta bænda ~ Bændaferðir
Síðumúla 2, 108 Reykjavík ~ Netfang: bokun@baendaferdir.is ~ Veffang: www.baendaferdir.is ~ Sími: 570 2790