Annar fræðslufundur Laugaskokks og World Class í vetur fer fram mánudaginn 17. nóvember kl. 20 í fundarsal Lauga. Fyrirlesari er Jón Steinar Jónsson, læknir á heilsugæslunni í Garðabæ og lektor við læknadeild HÍ.
Fundurinn ber yfirskriftin; Hreyfiseðill - ávísun á hreyfingu sem meðferð. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ávísun á hreyfingu sem meðferð gegn sjúkdómum, ásamt því að stuttlega verður fjallað um mataræði mannsins til forna og hvort það gæti orðið fyrirmynd mataræðis mannsins í nútíð og framtíð.
Eins og þekkt er hafa rannsóknir síðustu ára leitt í ljós að hreyfingarleysi er sterkur áhættuþáttur er kemur að sjúkdómum. Að sama skapi hafa rannsóknir sýnt að hreyfing sem meðferð eða hluti af meðferð við fjölda algengra sjúkdóma hefur jákvæð áhrif á batahorfur.
Ávísun á hreyfingu er aðferð sem hefur verið byggð upp m.a. á Norðurlöndu undanfarin 10-15 ár. Á sama tíma hefur verið unnið að uppbyggingu slikrar meðferðar hér á landi og í dag geta allir heilsugæslulæknar ávísað hreyfingu sem meðferð.
Rétt er að minna á að aðgangur er ókeypis og gestir eru beðnir um að athuga að gengið er í gegnum Joe & juice í húsakynnum World Class í Laugum.