Frestun á Skeiðarárhlaupi til 24. júlí

birt 07. júní 2011

Ákveðið hefur verið að fresta Skeiðarárhlaupi til sunnudagsins 24. júlí vegna óhagstæðra veðurskilyrða. Það sem af er vikunni hefur verið norðaustanátt með tilheyrandi öskufoki af Skaftafellsjökli. Loftraki er kominn niður fyrir 30% og ekkert útlit er fyrir að rigni dagana fyrir hlaup. Skilyrði fyrir víðavangshlaup eru því ekki lengur góð. Því telja mótshaldarar skynsamlegt að seinka hlaupinu.

Allar líkur eru á að ástand muni batna eftir því sem á líður sumarið. Skriðjöklarnir umhverfis Skaftafell hafa hreinsast mjög í rokinu síðustu daga og mikið af öskunni sem þar var er komin á haf út.

Sem fyrr segir er ný dagsetning á Skeiðarárhlaupi sunnudagurinn 24. júlí 2011. Sama fyrirkomulag verður haft og áður var auglýst. Jafnframt munu ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa í ríki Vatnajökuls veita veglega vinninga sem allir þátttakendur eiga jafna möguleika á.

Ferðaþjónustan á Jökulsárlóni býður fjölskyldu í siglingu, Öræfaferðir bjóða fjölskyldu í ferð í Ingólfshöfða og Íslenskir fjallaleiðsögumenn bjóða ferð á Hvannadalshnúk fyrir tvo.