Þátttakendum í almenningshlaupum hefur fjölgað um 29% í ár miðað við í fyrra. Séu þátttökutölur 2015 bornar saman við árið 2013 er fjölgunin hvorki meira né minna en 41%. Hlaup.is hefur tekið saman þátttökutölur í 17 almenningshlaupum sem jafnan fara fram á fyrri hluta ársins. Listinn er ekki tæmandi en þó er þar að finna flest stærstu hlaupin.
Stóru hlaupin stækka
Fjölmörg almenningshlaup hafa farið fram nú í vor og þátttaka í mörgum tilfellum verið með miklum ágætum. Það er tilfinning margra að hlaupin séu enn í stórsókn sem sé síst í rénun. Hlaup.is ákvað að ráðast í örlitla skoðun á þátttöku í almenningshlaupum sem farið hafa fram þetta vorið og samanburði við þátttökuna síðustu tvö ár.
Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að þátttaka í almenningshlaupi er mörgum breytum háð, t.d. veðri, tímasetningu, markaðsstarfi eða Eurovision svo eitthvað sé nefnt. Því ber að forðast að draga of miklar ályktanir af tölunum hér að neðan þó vissulega sé gaman að velta þeim fyrir sér.
Við skoðun á tölunum kemur í ljós að þátttakendum fjölgar alls ekki í öllum hlaupanna. Skoðun leiddi í ljós að í fimm hlaupum af sextán fjölgaði þátttakendum miðað við árin tvö á undan, í tíu fækkaði þátttakendum og eitt hlaupið var aðeins haldið 2015. Ofangreindar staðreyndir eru í sjálfu sér ekki sérstakur vitnisburður um að almenningshlaup séu í stórsókn þó þátttakan haldi sér þokkalega í mörgum hlaupanna.
Þátttakendum fjölgað um rúmlega þúsund frá 2013
En sé fjöldi þátttakenda í áðurnefndum hlaupum skoðaður í heild sinni kemur í ljós að fjölgunin er gríðarleg þegar þátttakendatölur eru lagðar saman. Árið 2014 voru þátttakendur samtals 3327 og 2013 voru þeir 3047. En í ár eru þátttakendur í hlaupunum 3943 (4255 ef Stjörnuhlaupinu er bætt við). Það er 29% fjölgun á milli áranna 2014 og 2015. Fjölgunin er 41% sé árin 2013 og 2015 borin saman.
Gaman er að sjá gríðarlega fjölgun þátttakenda í Víðavangshlaupi ÍR í ár og þá kom nýafstaðið Hvítasunnuhlaup Hauka mjög sterkt inn. Ónefnt er einnig Stjörnuhlaupið, hlaup sem haldið var í fyrsta sinn nú á vordögum, þar sem 312 tóku þátt í hlaupi með frábærri umgjörð.
Almenningshlaupin í stórsókn
Þegar allt er talið má því taka undir þær fullyrðingar að almenningshlaup séu í stórsókn á landinu. En framundan er seinni helmingur hlaupaársins með ýmsum stórum viðburðum. Ef eitthvað er að marka stærri viðburði liðinna mánaða er von á að mjög góðri þátttöku í mörgum þeirra flottu almenningshlaupa sem eru framundan.
En rétt er að minna á að hlaupasamfélagið eflist ekki af sjálfur sér, það kostar blóð, svita og tár. Hlaupahaldarar eiga hrós skilið fyrir stórbætta umgjörð sem vafalítið á sinn þátt í auknum vinsældum íþróttarinnar. En það er einnig hollt að líta til baka og sjá hvað er vel gert og hvar er svigrúm til bætinga.
201520142013Icelandairhlaupið504548351Vormaraþon FM180211235Neshlaupið205248247Intersporthlaupið313521Breiðholtshlaupið8845115Píslarhlaupið615054Stjörnuhlaupið312001. maí hlaup UFA8111370Hvítasunnuhlaupið288216125Sr. Friðrikshlaupið102670Powerade /janúar282252346Powerade /febrúar266278304Powerade/mars218309342Hlauparöð FH/Jan20689175Hlauparöð FH/Feb122163183Hlauparöð FH/Mars216177143Víðavangshlaup ÍR1129526336Alls429133273047*Allar tölur eru fengnar af úrslitasíðu hlaup.is