Fréttatilkynning frá Framförum - Bestu hlauparar og hlaupahópur

birt 27. janúar 2012

Framfarir, hollvinafélag millivegalengda og langhlaupara, afhenti á dögunum viðurkenningar til bestu hlaupara og hlaupahóps ársins 2011. Viðurkenningarnar voru veittar á Reykjavík International Games í Laugardalshöll.

Það kom líklega engum á óvart að karlhlaupari ársins var Kári Steinn Karlsson Breiðabliki fyrir árangur sinn í maraþonhlaupi en hann setti nýtt glæsilegt Íslandsmet í Berlínarmaraþoninu, 2:17,12 klst og náði um leið lágmarki á Ólympíuleikana í London fyrstur íslenskra karla. Einnig setti Kári Steinn Íslandsmet í hálfu maraþoni 65.35 mín. Helen Ólafsdóttir ÍR var kvenhlaupari ársins, viðurkenninguna hlítur hún fyrir góðan árangur í heilu maraþoni á árinu 3:00,43 klst sem er besti árstíminn og fimmti besti árangur íslenskrar konu frá upphafi. Aníta Hinriksdóttir ÍR var efnilegust kvenna auk þess sem hún fékk viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar. Aníta átti hreint frábært ár, bætti árangur sinn í öllum greinum og sér í lagi í 800 m úr 2:18,1 mín í 2:08,64 mín og í 1500 m úr 4:44,83 mín í 4:28,59 mín.  Bætti sig í öllum öðrum greinum einnig. Hún varð auk þess Norðurlandameistari í flokki 19 ára og yngri en Aníta er nýorðin 16 ára og var því 15 ára þegar hún vann titilinn.

Tómas Zoëga einnig í ÍR var kjörinn efnilegastur karla. Hann hefur náð góðum árangri í yngri flokkum undanfarin ár, bæði í brautarhlaupum og götuhlaupum. Miklar bætingar hans árið 2011 benda til þess að Tómas geti náð mjög langt.

Enn einn ÍR-ingurinn Þorbergur Ingi Jónsson sýndi mestar framfarir á árinu 2011. Hann bætti árangur sinn í 5000 m hlaupi úr 15:04,75 mín í 14:53,87 mín og í 10000 m brautarhlaupi  úr 33:00;02 mín í 31:43,03 mín.

Allir þessir hlauparar nema Helen eru þjálfaðir af Gunnari Páli Jóakimssyni, margreyndum keppnismanni og afreksþjálfara hjá ÍR.

Hlaupahópur ársins var hinn öflugi skokkhópur Hamars í Hveragerði sem stýrt er af Pétri Frantzsyni. Þau hljóta viðurkeningu fyrir öflugt starf á árinu 2011, eru sýnilegir á netinu, duglegir að taka þátt í hlaupum og halda uppi öflugu prógrami fyrir hlaup og göngu þrátt fyrir að vera starfandi í litlu bæjarfélagi. Eitt verkefni sem þau stóðu fyrir var nýtt utanvegahlaup, Hamarshlaupsins, sem tókst mjög vel og verður haldið í annað sinn í ár.

Þess má geta að þeir Þorbergur Ingi og Tómas eru ásamt þeim Arnari Péturssyni og Reyni Bjarna Egilssyni á leið í Evrópukeppni félagsliða á Spáni sem fram fer í byrjun febrúar en þar keppa þeir við 38 félagslið víðsvegar að frá Evrópu í 10 km löngu víðavangshlaupi. Keppnisrétt hafa þau félagslið er sigra í meistaramótum síns heimalands en ÍR varð Íslandsmeistari félagsliða í karla og kvennaflokki árið 2011.

Framfarir óska þessum hlaupurum til hamingju með viðurkenningarnar og óskar þeim góðs gengis.

Fríða Rún Þórðardóttir, formaður Framfara