Fréttatilkynning frá Frjálsa Maraþonfélaginu

birt 04. janúar 2007

Á Gamlársdag var Pétur Ingi Frantzson gerður að heiðursfélaga Frjálsa Maraþonfélagsins og sæmdur gullmerki félagsins fyrir framlag sitt til almenningshlaupa. Er Pétur þriðji einstaklingurinn sem gerður er að heiðursfélaga, en hinir tveir eru Torfi H. Leifsson og Gunnar Páll Jóakimson. Með útnefningu heiðursfélaga vill Frjálsa Maraþonfélagið sýna stuðning og hvetja þá sem leggja á sig ómælda vinnu í þágu almenningshlaupa á Íslandi.

Pétur Ingi Frantzson hefur síðastliðinn áratug verið ötull frumkvöðull almenningshlaupa, sem þjálfari, sem keppnishaldari, sem formaður Félags Maraþonhlaupara og ekki síst sem skokkari sjálfur. Hann þjálfaði Skokkhóp Námsflokka Reykjavíkur um árabil og síðan Laugaskokk frá stofnun, en þar hefur Pétur byggt upp einn öflugasta skokkhóp landsins. Og nú nýlega hefur hann tekið að sér þjálfun skokkhóps Selfoss.

Pétur er einn stofnenda Félags Maraþonhlaupara og formaður þess í um áratug. Í gegnum þann félagsskap hefur Pétur m.a. haldið maraþonhlaup tvisar á ári ásamt því að koma upp búnaði og þekkingu til hlaupahalds. Í gegnum árin hefur Pétur staðið fyrir og stjórnað fjölda götuhlaupa, frá 10 km til maraþons.

Frjálsa Maraþonfélagið þakkar Pétri óeigingjarnt framlag hans til almenningshlaupa á Íslandi með von um að þekking hans og kraftur verði áfram nýttir á þessu sviði.

Á meðfylgjandi mynd eru Pétur Ingi Frantzson og Jóhann Kristjánsson formaður Frjálsa Maraþonfélagsins.