Fréttatilkynning frá Reykjavíkurmaraþoni

birt 19. ágúst 2009

Athugið að forskráningu í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka lýkur í kvöld, miðvikudaginn 19. ágúst.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram í miðborginni á laugardaginn, 22.ágúst. Forskráningu á netinu (www.marathon.is) lýkur á miðnætti í kvöld. Eftir þann tíma verður hægt að skrá sig á skráningarhátíð í Laugardalshöll föstudaginn 21.ágúst frá kl. 10.00-19.00.

Skráning í hlaupið gengur mjög vel og virðist ætla að vera fjölgun á þátttakendum frá því í fyrra. Nú þegar hafa 5605 skráð sig til þátttöku sem er 13,6% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Flestir eru skráðir í 10 km hlaupið eða 2165 manns og 1187 í hálft maraþon. Latabæjarhlaupið verður væntanlega fjölmennt eins og undanfarin ár en 976 voru búnir að skrá sig um hádegisbilið í dag. Alls hafa 618 skráð sig til þátttöku í maraþoni (42,2 km) og 659 í skemmtiskokk.

Reykjavíkurmaraþonið er jafnan uppskeruhátíð hlaupara eftir æfingar sumarsins. Hátíðin hefst föstudaginn 21. ágúst þegar allir þátttakendur koma í Laugardalshöllina og sækja skráningargögn sín. Í skráningargögnum má meðal annars finna bol hlaupsins, frímiða í sund, hlaupnúmer og tímatökuflögu fyrir þá sem taka þátt í keppnisvegalengdum. Á skráningarhátíðinni verða nokkrir fræðandi fyrirlestrar auk þess sem öllum þátttakendum er boðið í pastaveislu Barilla.

Líkt og undanfarin ár geta hlauparar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hlaupið til styrktar góðum málefnum. Við skráningu í hlaupið á marathon.is geta hlauparar valið sér góðgerðafélag sem fær þá fjárhæð sem viðkomandi safnar. Hlauparar geta farið á „mínar síður" á marathon.is og þaðan sent vinum og vandamönnum áskorun um að heita á sig. Þannig fá hlauparar ennþá meiri hvatningu um að standa sig vel og klára hlaupið og leggja góðu málefni lið um leið.  Það eru þó ekki aðeins vinir og vandamenn sem geta heitið á hlaupara því listi yfir alla sem hlaupa til góðs er birtur á marathon.is. Hver sem er sem hefur aðgang að tölvu og kreditkorti getur farið á heimasíðuna og heitið upphæð að eigin vali á þau málefni og/eða einstaklinga sem þeim lýst best á. Íslandsbanki mun eins og áður heita á starfsmenn sem taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og renna áheitin óskipt til þeirra góðgerðafélaga sem starfsmenn kjósa að hlaupa fyrir. Sú breyting verður á áheitum bankans á starfsmenn að í ár verður greidd föst upphæð til starfsmanns m.v. þá vegalengd sem viðkomandi hleypur.

Nokkrar nýjungar verða í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ár:

  • Í skemmtiskokki verður ný hlaupaleið við Tjörnina og um Hljómskálagarð.
  • Latabæjarhlaupið á nýjum stað, hlaupið frá Hljómskálagarði.
  • Fimm hraðastjórar í 10 km hlaupinu hjálpa hlaupurum að ná hraðamarkmiðum sínum.
  • Hægt verður að fylgjast með gengi hlaupara á netinu.