birt 04. júní 2010

Margir önduðu léttar þegar fram kom í fréttum á dögunum að talið væri að gosinu í Eyjafjallajökli væri lokið. Eðlilega er fólki létt enda gosið búið að hafa áhrif á fólk um allan heim.

Við sem erum að undirbúa Laugavegshlaupið höfum verið vongóð um að hlaupið verði samkvæmt áætlun svo framarlega sem hægt væri að komast inn í Þórsmörk með fólk og varning.  Vegurinn inn í Þórsmörk hefur verið lagaður af Vegagerðinni og rútuferðir verða heimilaðar undir eftirliti. Þetta voru góðar fréttir í nokkra daga. En vegur er eitt og aska er annað.

Askan úr gosinu barst eins og frægt er um háloftin til Evrópu og víðar. Allan maí mánuð varð ekki vart við ösku  hjá landvörðum í Húsadal í Þórsmörk.  En það var of gott til að haldast. Þegar vindátt breyttist í  norðanátt rigndi ösku yfir Húsadal og nágrenni. Nú er ljóst að askan nær yfir allt Laugavegssvæðið frá Landmannalaugum í Þórsmörk.
Við erum í sambandi við ýmsa sérfræðinga sem segja að með góðri úrkomu geti askan horfið í jörðu. Það þarf að gefa þessu smá tíma og við gefum út nýja tilkynningu í næstu viku. Á meðan eru Laugavegsfarar beðnir að dansa regndansinn.

Ofangreindar upplýsingar eru einnig birtar á heimasíðu hlaupsins: http://www.marathon.is/laugavegur.