FRÍ velur landslið í utanvegahlaupum fyrir HM í Tælandi í nóvember

uppfært 10. febrúar 2021

Frjálsíþróttasamband Íslands mun senda landslið, karla og kvenna, til keppni á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum sem fram fer 11-14. nóvember 2021 í Chiang Mai, Tælandi sem hefur það formlega heiti "2021 Amazing Thailand World Mountain & Trail Running Championships".

Mótið í ár er fyrsta mótið í utanvegahlaupum sem haldið er í samstarfi World Athletics, ITRA (International Trail Running Association), WMRA (World Mountain Running Association) og IAU (International Association of Ultrarunners).

Hugmyndin er að þessi keppni komi í staðinn fyrir heimsmeistarakeppni sem annars vegar WMRA hélt og hinsvegar IU/ITRA héldu og þannig fáist allir bestu utanvega- og fjallahlauparar til að keppa saman í einni og sömu keppninni. Einnig er hugmyndin að bjóða hinum venjulega hlaupara að spreyta sig á hluta af sömu leiðum og eru notaðar fyrir heimsmeistarakeppnina og þá í formi hefðbundins utanvegahlaups fyrir alla þá sem vilja taka þátt.

Keppt verður í 40 km utanvegahlaupi og 80 km utanvegahlaupi sem hluta af HM en til viðbótar er boðið upp á ýmsar aukagreinar fyrir yngri og eldri hlaupara (juniors og seniors) eins og 35-45 km og 75-85 km fjallahlaupakeppni, 5-6 km og 10-12 km stutt hlaup með miklum hækkunum/lækkunum.

Föstudaginn 12. nóvember er keppt í 40 km hlaupinu og daginn eftir, laugardaginn 13. nóvember er keppt í 80 km hlaupinu.

Langhlaupanefnd FRÍ leggur til að eftirfarandi hlauparar skipi landslið Íslands í utanvegahlaupum og taki þar með þátt fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramótinu í Chiang Mai. Við val hlaupara er stuðst við stigalista ITRA og almennan árangur í hlaupum á undanförnum árum.

  • Rannveig Oddsdóttir
  • Anna Berglind Pálmadóttir
  • Elísabet Margeirsdóttir
  • Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir
  • Helen Ólafsdóttir
  • Þorbergur Ingi Jónsson
  • Sigurjón Ernir Sturluson
  • Bjarni Atlason
  • Ingvar Hjartarson
  • Arnar Pétursson
  • Örvar Steingrímsson

Byggt á frétt á fri.is og opinberum vefum samtakanna sem halda heimsmeistaramótið.