Hin þrautreynda Fríða Rún Þórðardóttir keppti á HM öldunga í frjálsum íþróttum sem fram fór á Spáni 4.-16. september. Fríða Rún keppti í þremur greinum og gekk best í átta km víðavangshlaupi. Þar hljóp hún á tímanum 32:59 og varð í fimmta sæti. Í 10 km götuhlaupi lögðu 50 keppendur af stað en aðeins 42 kláruðu hlaupið. Fríða Rún náði 13. sæti á tímanum 42:04. Hlaupið fór fram við gríðarlega erfiðar aðstæður í miklum hita og raka. Í 5000 metra hlaupi varð Fríða Rún ellefta í sínum riðli og tólfta í heildina á tímanum 20:04,34. Árangur Fríðu Rúnar er ekki síst athyglisverður því hún hefur átt við meiðsli að stríða síðan í júlí og ekki æft sem skyldi.
Fríða Rún er með mikla keppnisreynslu og hefur verið áberandi í íslenskum frjálsíþróttum um langa hríð. Hún hefur áður keppt á HM öldunga sem og EM öldunga. Þá hefur hún nokkrum sinnum komist á verðaunapall t.d. á EM utanhúss fyrra, EM innanhúss árið 2016 og HM á San Sebastian árið 2005.