Friðarhlaupið hefst i Reykjavík 26. maí

birt 14. maí 2014

Skipuleggjendur Friðarhlaupsins á Íslandi vilja hvetja hlaupara til að slást í hópinn og hlaupa með Friðarhlaupurunum þegar lagt er af stað frá Reykjavík til Mosfellsbæjar með logandi friðarkyndilinn, mánudaginn 26. maí næstkomandi. Um er að ræða fyrsta legg Friðarhlaupsins hér á landi en hlaupið verður með logandi friðarkyndilinn um landið 26. maí - 2. júní. Allir eru velkomnir og hlaupið verður saman í hóp. Fyrsti leggurinn er  um 10 km og hægt er að hlaupa alla leið eða hluta hennar

Lagt er af stað frá Hamraskóli í Grafarvogi og er mæting eigi síðar en 17.30.  Þaðan er hlaupið að íþróttavellinum við Varmá í Mosfellsbæ. Mögulegt era ð slást í hópinn kl.18.05 á bílastæðið við Bauhaus

Tímaáætlun:
kl.17.30: Mæting í Hamraskóla, hópmynd og friðarstund
kl.17.35: Lagt af stað frá Hamraskóla
kl.18.05: Komið að bílastæðinu við Bauhaus, þar sem hlauparar geta bæst í hópinn
kl.18.10: Hlaupið frá bílastæðinu við Bauhaus
kl.18.40: Komið að íþróttavellinum í Varmá
kl.18.45: Hópmynd og friðarstund við friðartréð í Mosfellsbæ (rétt hjá íþróttavellinum).

Tímaáætlun þessi er sett fram með fyrirvara um tafir vegna veðurs o.þ.h. Ekki er þörf á að skrá sig.

Upplýsingar: Torfi Leósson, s.697-3974, iceland@peacerun.org

Friðarhlaupið á Íslandi 2014
Friðarhlaupið verður á Íslandi 26.maí - 2.júní 2014.  Eftir það verður Friðarkyndillinn réttur áfram til Færeyja. Eftirfarandi  áætlun getur tekið breytingum:

  • 26. maí - Opnunarathöfn í Reykjavík - Heimsóknir í grunnskóla í Reykjavík - Hlaupið frá Reykjavík til Mosfellsbæjar.
  • 27. maí - Heimsóknir í grunnskóla í Reykjavík og Mosfellsbæ - Hlaupið að Hvalfjarðargöngunum.
  • 28. maí - Akranes - Hvalfjarðarsveit - Borgarnes - Heimsóknir í grunnskóla og hlaupið á milli sveitarfélaga.
  • 29. maí - Hlaupið í Borgarbyggð.
  • 30. maí - Heimsóknir í grunnskóla í Borgarbyggð.
  • 31. maí - Hlaupið að Húsafell.
  • 1. júní - Friðarkyndillinn fer á Langjökul.
  • 2. júní - Reykjavík: Friðarkyndillinn réttur áfram til Færeyja.

Nánar um Friðarhlaupið
Friðarhlaupið (Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run) er alþjóðlegt kyndilboðhlaup. Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlaupararnir logandi kyndil, sem berst manna á milli í þúsundum byggðarlaga í yfir hundrað löndum. Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað.  Markmið hlaupsins er einfaldlega að auka meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefst í hjarta hvers og eins.

Yfir 100 lönd taka þátt í ár í öllum heimsálfum.  Í Evrópu er hlaupið boðhlaup milli 47 landa sem hófst 21. febrúar í Portúgal.

Nánari upplýsingar má finna á www.friðarhlaup.is eða www.peacerun.org