Evrópusamband soroptimista mun nú fjórða árið í röð, ásamt fleirum s.s. AIMS, standa að alþjóðlegu Friðarmaraþoni í Kigali, höfuðborg Rúanda. Eins og alkunna er þá áttu sér stað skelfileg þjóðarmorð í Rúanda árið 1994 og uppbygging á landi og þjóð stendur enn yfir. Tilgangur maraþonsins er að hlaupa í þágu friðar og sátta, að rétta íbúunum hjálparhönd og sýna umheiminum uppbyggingu þá sem er að eiga sér stað í Rúanda.
Árið 2005 tóku 3 íslenskir maraþonhlauparar þátt í hlaupinu með frábærum árangri. Það voru þær Bryndís Ernstdóttir, Helga Ólafsdóttir og Rannveig Oddsdóttir. Einnig er boðið upp á hálfmaraþon og 5 km skemmtiskokk. Hlaupið fer fram í lok regntímabilsins, en hitastig í Rúanda er á bilinu 15-30 gráður allan ársins hring.
Nánari upplýsingar um hlaupið má finna á slóðinni: www.kigalimarathon.com. Þar má einnig sjá upplýsingar um styrktaraðila og árangur hlaupara undanfarin ár. Í tengslum við hlaupið verður boðið upp á úrval skoðunarferða um þetta fallega land. Með aðstoð soroptimista í Rúanda gefst þar einstakt tækifæri til að komast nálægt þjóðarsálinni og lífinu í landinu en þeir hafa unnið mjög mikilvægt uppbyggingarstarf undanfarin ár. Upplýsingar um ferðir, hótel og annað sem viðkemur ferðalaginu veita Hafdís Karlsdóttir hafdis@in.is og Sigríður Þórarinsdóttir sitho@centrum.is, en stefnt er að hópferð frá Íslandi.
Við hvetjum hlaupara og allt áhugafólk um frið til að skoða þetta tækifæri til að hlaupa í Afríku, til að kynnast einstakri þjóð og leggja um leið góðu málefni lið.
f.h. íslenskra soroptimista
Sigríður Þórarinsdóttir