Fyrsta hlaup í Víðavangshlauparöð Newton Running og Framfara 2014

birt 06. október 2014

Fyrsta hlaup í Víðavangshlauparöð Newton Running og Framfara 2014 var haldið við heldur ömurlegar aðstæður, slyddu og roki, við Rauðavatn þann 4.október.

Fimmtán hlauparar létu það ekki aftra sér heldur tókust á við krefjandi brautina með bros á vör. Í stutta hlaupinu var það Snorri Sigurðsson sem náði að halda nafna sínum Stefánssyni í skefjum á einstígum endaspretti en í langa hlaupinu háðu Arnar Pétursson og Sæmundur Ólafsson skemmtilega baráttu sem lyktaði með því að Arnar seig fram úr á síðasta hring.

Kvennamegin var ekki mikla keppni að fá fyrir Anítu Hinriksdóttur og Andreu Kolbeinsdóttur í U16 flokki. Vonandi að rætist úr því og að mætingin karlamegin batni enn frekar um næstu helgi við Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar í Fossvogi, þar sem búið er að panta mun betra veður.

Sjá nánari upplýsingar um næsta hlaup og úrslitin í fyrsta hlaupinu hér á hlaup.is.