birt 15. janúar 2006

Í ár var metþátttaka í Gamlársdagshlaupi Skagfirðinga, en alls hlupu og/eða gengu um 185 manns á öllum aldri. Þetta er aukning um 40% frá fyrra ári og lék veðrið við hlaupara. Þetta hlaup er undir aðeins öðrum formerkjum en önnur Gamlársdagshlaup að því leiti að eingöngu er um að ræða hámarksvegalengd, sem er 9,6 km, og er hverjum og einum heimilt að snúa við þegar viðkomandi hefur fengið nóg. Ekkert þátttökugjald er í hlaupið og engin tímataka, þannig að starfsmenn við hlaupið eru mjög fáir. Skipuleggjendur og hlauparar njóta svo aðstoðar lögreglu í startinu og meðan hópurinn dreifir úr sér. Leiðin er sönduð ef hálka er og hafa bæjarstarfsmenn og Vegagerðin verið skipuleggjendum innan handar með það.

Þetta virkar mjög vel og eru oft heilu fjölskyldurnar sem taka þátt og er gaman að sjá kappið sem skín af krökkunum sem eru annað hvort með pabba og mömmu eða afa og ömmu. Að loknu hlaupi er safnast saman í íþróttahúsinu og drukkinn svaladrykkur og dregið úr fjölda útdráttarverðlauna sem ýmis fyrirtæki hafa gefið.

Með góðum áramóta- og hlaupaárskveðjum af Króknum,

Árni Stefánsson