Heimsmetið í maraþonhlaupi stendur en margir höfðu spáð því að metið félli í Berlínarmaraþonhlaupinu sem nú stendur yfir. Lengi vel leit út fyrir að metið væri í hættu en síðustu tíu kílómetrana dró heldur af fremstu mönnum. Fremstu maraþonhlauparar heims höfðu fyrir hlaupið líst því yfir að þeir hyggðust gera atlögu að metinu í Berlín. Þá skrifaði Stefán Gíslason, hlaupafrömuður og pistlahöfundur á hlaup.is, lærða grein um atlöguna að heimsmetinu í Berlín.
Mikil spenna var í hlaupinu en þeir Eliud Kipchoge (Keníu) og Guye Adola (Eþíópíu)) hlupu nánast hlið við hlið síðustu tíu km þangað til að Kipchoge náði að slíta sig örlítið frá Adola þegar 2-3 km voru eftir. Kipchoge kom í mark á tímanum 2:03:34 og Guye Adola á 2:03:47. Það rigndi í Berlín í morgun og úrkoman hefur eflaust haft sín áhrif á keppendur en engu að síður frábærir tímar hjá fremstu mönnum. Þess má geta að heimsmetið er 2:02:57.
55 Íslendingar eru skráðir til leiks í Berlín og tímar þeirra koma inn á hlaup.is seinna í dag.