birt 24. júlí 2007

Sex íslenskir hlauparar eru nú staddir á Grænlandi að taka þátt í Siku Extreme Arctic Challenge, fimm daga ævintýrakeppni (adventure race). Keppni þessi hefur nýlega skipt um nafn og er sú sama og í fyrra hét Arctic Team Challenge eða ATC.

Hægt er að fylgjast með keppninni á : http://www.atc.gl.

Um er að ræða sveitakeppni þar sem eru fjórir einstaklingar saman í sveit og keppt er í fjallamennsku þar sem hlaupið er yfir fjöll og jökla, fjallahjólreiðum og kanóróðri. Fjallamennskan er að miklu leyti ratleikur og gengi liðanna stendur og fellur með því að þau velji bestu leið á milli staða, en sú leið er oft ekkert endilega sú stysta og það hjálpar því heilmikið að þekkja landslagið á Angmassalik eyju þar sem keppnin fer fram.  Það skemmir því ekki fyrir Íslendingunum að þrír þeirra eru búnir að fara í þessa keppni tvisvar áður.

Íslendingarnir tefla fram einni íslenskri karlasveit :  The Intersport Iceland og einni íslensk-danskri blandaðri sveit : Northern lights.

Í sveitinni The Intersport Iceland eru að þessu sinni :  Trausti Valdimarsson liðsstjóri, Gunnlaugur Júlíusson, Ásgeir Elíasson og Stefán Viðar Sigtryggsson.

Í sveitinni Northern lights sem á kynningarsíðu keppninnar hefur nafnið Happy people eru Pétur Helgason, Erlendur Birgisson, Karin Moe Bojsen og Pia Anning Nielsen.

Í keppninni taka þátt 16 sveitir frá ýmsum heimshornum og komust færri að en vildu.

Keppnin hófst á laugardaginn og fer þannig fram að hvern morgun fá liðin afhent verkefni dagsins. Verkefnin geta verið allt frá hjólreiðakeppni á götunum í kringum þorpið Tasillaq þar sem keppnin fer fram og upp í ratleik sem felur í sér hlaup yfir fjöll og firnindi.   Fyrstu þrjá dagana fá liðin verkefni sem hægt er að klára á einum degi (þótt þau geti alveg tekið allan daginn og fram á kvöld) en fjórða daginn er verkefnið af þeirri stærðargráðu að það tekur liðin hátt á annan sólarhring að ljúka þeim.

Í lok þriðja dagsins var Team Intersport Iceland í fimmta sæti keppninnar á tímanum 21:07:54 (óopinber tími), innan við hálftíma á eftir Explorer og um tveimur tímum á eftir liðinu sem þá var í fyrsta sæti (18:07:08) :

Af síðu ATC eftir 3. daginn:

The unofficial accumulated times for top 6 are:

18:07:08   Neriusaaq      
18:26:45   ISI Salomon    
18:56:05   Maniitsoq 225
20:41:46   Explorer            
21:07:54   Intersport Iceland
22:10:48   Les Couleurs

Liðin sem eru á undan þeim eru öll skipuð mönnum sem hafa áður verið í keppninni og tvö þeirra liða eru grænlensk.

Danska sjónvarpið hefur verið þarna árlega við upptökur og gert þætti um keppnina og svo er einnig í þetta sinn.