Kári Steinn og Arnar eftir hlaupið á laugardaginn.Árangur íslensku keppendanna á HM í hálfu maraþoni um síðustu helgi kom landsliðsþjálfaranum, Gunnari Páli Jóakimssyni ekki sérstaklega á óvart. Eins og kunnugt er setti Kári Steinn Karlsson Íslandsmet auk þess sem Arnar Pétursson og Arndís Ýr Hafþórsdóttir bættu sína bestu tíma.Sýndu mikið keppnisskap"Kári Steinn, Arnar og Arndís áttu þessar bætingar inni. Það er samt ekki sjálfgefið að skila því í keppni, hvað þá á Heimsmeistaramóti þar sem spennan er mikil, þannig að ég er mjög ánægur með hvað þau sýndu mikla einbeitingu og keppnishörku. Þau voru staðráðin í að ná þessum bætingum," sagði Gunnar Páll þegar hlaup.is hafði samband við hann í dag.
Alls tóku sjö íslenskir keppendur þátt en meiðsli og veikindi settu strik í reikninginn. Helen Ólafsdóttir átti við meiðsli að stríða í kálfa í aðdraganda mótsins og þá veiktist Ingvar Hjartarson nóttina fyrir mótið. Einnig var gamla kempan Marta Ernstdóttir í íslenska liðinu.Ómetanleg reynsla Aðspurður hvort þátttaka í mótinu um helgina sé ekki íslensku keppendunum dýrmæt reynsla svarar Gunnar Páll játandi. "Það er mjög mikilvægt að miða sig við þann hóp sem þú vilt keppa við á alþjóðavettvangi. Við viljum taka stöðuna og svo að sjálfsögðu að setja markmið til að ná betri árangri. Við vorum með blöndu af mjög reyndum og lítt reyndum hlaupurum. Það er ómetanlegt fyrir þá yngri að fá að taka þátt í svona stórum viðburði með reynda hlaupara í hópnum."Gunnar Páll og Kári Steinn í Berlín fyrir tveimur árum.
Vill komast nær skandinavísku keppendunum
Þrátt fyrir fínan árangur um helgina vill Gunnar Páll ennþá meira frá íslensku keppendunum enda margir þeirra ungir að aldri og full ástæða til bjartsýni. "Norðurlandahlaupararnir stóðu sig vel í þessu hlaupi en það er bara Kári Steinn sem er að blanda sér í baráttu við þá í dag. Það er gott takmark fyrir hann að ná þeim allra bestu í þeim hópi og fyrir hin að ná að blanda sér í keppni þeirra Norðurlandabúa sem keppa á þessum alþjóðlegu mótum. Næsta HM í hálfmaraþoni er í Cardiff eftir tvö ár. Ég vona að þessi hópur og aðrir sem möguleika eiga á að komast í liðið setji sér markmið um að koma verulega vel undirbúin til leiks þar. Við viljum vinna okkur upp á listanum, bæði sem einstaklingar og lið," segir Gunnar Páll að lokum.